Innanhússfrágangur er hafinn á tveimur efstu hæðunum í nýjum meðferðarkjarna Landspítalans við Hringbraut, á hæðum 5 og 6, en samið var við ÞG Verk um þann verkþátt.
Þá var nýverið efnt til markaðskönnunar vegna frágangs í tveggja hæða kjallara og á hæðum 1 til 4 og er næsta skref að efna til formlegrar auglýsingar útboðs sem er áformað um og eftir páska.
Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri Nýs Landspítala ohf., segir fjölmarga aðila hafa sýnt markaðskönnuninni áhuga. Þó nokkrir hafi skilað inn gögnum og nú sé Nýr Landspítali ohf. að vinna úr þeim upplýsingum, m.a. með viðræðum við markaðsaðila.
Vegna umfangs verksins munu þátttakendur í innkaupaferlinu fá nokkra mánuði til að vinna að tilboðsgerð en stefnt er að því að niðurstaða liggi fyrir í haust.
Gunnar áætlar að kostnaður við þennan verkþátt verði á þriðja tug milljarða króna en samningsupphæðir fara eftir eðli útboða. Um er að ræða sex hæðir af átta í byggingunni en ÞG Verk er sem áður segir að vinna við tvær efstu hæðirnar. Við hefðbundinn frágang bætist kostnaður við forsmíðaðar einingalausnir sem munu meðal annars mynda svokölluð hreinrými.
Með þeim koma herbergi til landsins fullbúin í hólf og gólf en þannig geta rýmin m.a. uppfyllt svonefnda GMP-vottun, að sögn Gunnars, sem gerð sé krafa um í ákveðnum hluta starfseminnar. Gera megi ráð fyrir að heildarkostnaður við innanhússfrágang í þessum verkþætti muni nálgast um 30 milljarða króna, að þessum einingalausnum meðtöldum, en um geti verið að ræða nokkur útboð.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag