Grindvíkingnum Gunnari Ólafi Ragnarssyni brá heldur betur í brún í gærmorgun þegar hann skoðaði gögn yfir jarðskjálfta yfir nóttina í og við Grindavík.
„Það er sprunga í gegnum húsið sem var búin að gliðna um einhverja 1-2 sentimetra og svo var smá hæðarmunur líka. Þessi skjálfti er bara alveg nákvæmlega þar sem sprungan er,“ segir Gunnar Ólafur í samtali við mbl.is.
Gunnar segist aldrei áður hafa orðið var við jarðskjálfta á þessari tilteknu sprungu þó litlir skjálftar hafi orðið inni í Grindavík, eins og hann orðar það.
„Ég hjó bara eftir þessu og bara: Hey, Norðurhóp 40! Þetta er húsið mitt! Manni brá smá við það,“ segir Gunnar.
Segir hann húsið sitja uppi á hrygg á milli sigdalanna tveggja austan og vestan hússins.
Blaðamaður biður Gunnar að setja sig í þau spor hvernig honum hefði orðið við ef hann hefði verið staddur í húsinu þegar hann hefði séð færsluna vegna skjálftans á vafra.is.
„Það hefði ekki verið þægileg tilfinning, ég skal alveg viðurkenna það,“ segir Gunnar og segist hann vera þess feginn að hafa losað eign sína. Þórkatla keypti hús fjölskyldunnar síðasta sumar.
Gunnar er búsettur ásamt konu sinni og tveimur dætrum í Kópavogi og segir ekki líklegt að þau fjölskyldan flytjist aftur til Grindavíkur á næstu árum. Segist hann þó vonast til að bæjarfélagið blessist.
„Ég er með átta ára stelpu og aðra 14 ára og sé þetta ekki fyrir mér á næstu árum.“
Aðspurður segir Gunnar að hann hafi ekki verið þessarar skoðunar alveg frá upphafi. Það hafi breyst þegar hraun fór að vella inn í bæinn og fjölskyldur þriggja stúlkna á aldri við dóttur hans misstu heimili sín.
„Mann langar að langa heim en vonandi fer þetta að klárast og fólk sem hefur áhuga á að flytja heim geti gert það og liðið vel.“