Ríkjandi hugmynd á Íslandi sem er misskilningur

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Þórarinn G. Pétursson varaseðlabankastjóri fjölluðu um …
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Þórarinn G. Pétursson varaseðlabankastjóri fjölluðu um peningastefnu á fundinum í morgun. mbl.is/Hákon

„Sú hugmynd hefur verið ríkjandi á Íslandi að ef þú bara hækkar laun einhverrar stéttar eða eykur framlögin til stofnana þá fáir þú allt í einu miklu meira út úr þeim. Það er misskilningur.“

Þetta var meðal þess sem Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar í gær. Var hann þar að svara spurningu Rögnu Sigurðardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, um áhrif aðgerða fyrri og núverandi ríkisstjórnar og lagði hún sérstaka áherslu á mögulegar hagræðingaraðgerðir sem núverandi ríkisstjórnin hefur talað fyrir.

Hefðu átt að draga fyrr úr covid-aðgerðum

Ásgeir byrjaði á að segja að eftir á að hyggja hefði þáverandi ríkisstjórn átt að draga úr covid-aðgerðum fyrr en gert var. Vísaði hann sérstaklega til ársins 2022 og sagði að eftir á hefði komið í ljós að hagvöxtur væri heil 9%. „Það er sú gagnrýni sem fyrri ríkisstjórn verður að taka til sín,“ sagði hann.

Sagði hann Seðlabankann annars almennt ánægðan með fyrirhugaða ríkisfjármálareglu þar sem koma ætti að reglu um raunútgjaldavöxt í stað þess að horfa mest til skuldahlutfalla.

Anna María Jónsdóttir og Ragna Sigurðardóttir, þingmenn Samfylkingarinnar.
Anna María Jónsdóttir og Ragna Sigurðardóttir, þingmenn Samfylkingarinnar. mbl.is/Hákon

Það hefur skort á þetta aðeins“ 

Ásgeir sagði að persónulega teldi hann einnig mikilvægt fyrir hið opinbera að bæta reksturinn meðal annars með að setja árangursviðmið. „Hvað er ríkið að kaupa, hvað er það að fá fyrir peningana. Það hefur skort á þetta aðeins,“ sagði hann.

Nefndi Ásgeir þessa fyrrnefndu ranghugmynd sem hann sagði vera ríkjandi á Íslandi og bætti við að það þurfi alltaf að vera sett einhver markmið þegar kæmi að rekstri. Benti hann á að peningastefnunefnd væri að vinna út frá verðbólgumarkmiði og fengi skammir ef ekki næðist árangur. Sagði hann mikilvægt að huga að því hvernig árangur næðist þegar opinbera kerfið væri skoðað.

Sameina hagsmuni ríkisstarfsmanna og hins opinbera

„Svo þarf að huga að mannauðsstefnu ríkisins, hvernig hægt er að sameina betur hagsmuni ríkisstarfsmanna og hins opinbera. Það er ekki augljóst fyrir mér að það sé endilega núna,“ bætti Ásgeir við um það sem hann kallaði óumbeðna ráðgjöf sína í þessum efnum. Að lokum sagði hann líka mikilvægt að finna rými fyrir fjárfestingu í innviðum landsins.

Frá fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun.
Frá fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun. mbl.is/Hákon

Áhyggjur af stöðu sveitarfélaga

Anna María Jónsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði Ásgeir svo um kjarasamninga kennara og sagðist Ásgeir ekki getað tjáð sig um einstaka kjarasamninga. Hann tók hins vegar fram að kjarasamningarnir síðasta vor hafi verið jákvæðir og að bankinn teldi þá stuðla að stöðuleika. Þá væri mikilvægt að vinnumarkaðurinn gengi í takt.

Hann tók fram að Seðlabankinn hefði áhyggjur af fjárhag sveitarfélaga og minnti hann á að töluvert stór hluti af verðbólgunni stafaði af hækkandi þjónustugjöldum sveitarfélaga. „Auðvitað höfum við áhyggjur af því.“

Að lokum tók Ásgeir fram að launahækkanir á Íslandi hefðu verið meiri á Íslandi en í samanburðarlöndum og að það væri þróun sem gengi ekki upp til lengdar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert