Ökumaður og farþegi bíls slógust inni í bílnum í dag með þeim afleiðingum að bíllinn hafnaði á öðrum bíl og olli tjóni.
Atvikið átti sér stað í miðborg Reykjavíkur og er meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglu vegna verkefna hennar frá fimm í morgun til fimm síðdegis.
Bæði ökumaður og farþegi voru handteknir og annar vistaður í fangageymslu.
Var lögreglu einnig tilkynnt um líkamsárás og þjófnað á skemmtistað í miðborginni en gerandinn var farinn þegar lögregla kom á vettvang. Málið er til rannsóknar.
Lögreglu var tilkynnt um nytjastuld á bifreiðinni OYM-80 í dag, rauðri Volkswagen golf bifreið.
Skráningarmerki voru þá tekin af 20 bifreiðum í dag, ýmist vegna vanrækslu á tryggingum, aðalskoðun eða endurskoðun.
Eldur kviknaði í rusli upp við hús í miðborginni en eldurinn hafði læst sig í gluggakarma. Slökkvilið kom á vettvang og slökkti eldinn en minniháttar skemmdir urðu.
Auk þess hafði lögregla afskipti af nokkrum ökumönnum vegna réttindaleysis eða aksturs undir áhrifum eða fyrir að tala í símann undir stýri án handfrjáls búnaðar.