Starfsmenn HS Orku á verði og fylgjast með

Séð yfir Svartsengi fyrr á árinu 2024.
Séð yfir Svartsengi fyrr á árinu 2024. mbl.is/Árni Sæberg

„Við erum nátt­úru­lega búin að fylgj­ast alla daga með hvað er í gangi og erum mjög vel tengd við al­manna­varn­ir og Veður­stof­una. Við erum reglu­lega með á þeirra fund­um,“ seg­ir Tóm­as Már Sig­urðsson, for­stjóri HS Orku.

Mik­il hrina skjálfta á sér nú stað við Reykja­nestá, suðvest­ast á Reykja­nesskaga, en þar er að finna Reykja­nes­virkj­un sem er í eigu fyr­ir­tæk­is­ins.

Hafa verið viðbúin lengi 

Tóm­as seg­ir HS Orku vera með viðvör­un­ar­kerfi og alltaf á verði.

„Og þegar það stefn­ir í gos þá bara tæm­um við svæðið. En það er búið að vera á því stigi í svo­lít­inn tíma núna að það geti gosið hvenær sem er, þannig við höf­um bara verið viðbúin.“

Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku.
Tóm­as Már Sig­urðsson, for­stjóri HS Orku. Ljós­mynd/​HS Orka

Auk­in þrýst­ing­ur ekki mælst

Mæl­ing­ar í bor­holu í virkj­un fyr­ir­tæk­is­ins í Svartsengi hafa áður gefið sterka vís­bend­ingu um að gos sé í vænd­um en þá mæl­ist auk­inn þrýst­ing­ur í hol­unni.

„Það hef­ur ekki mælst neitt núna svo ég viti til. Eng­in aukn­ing. En við fylgj­umst með því og vissu­lega fylgj­umst við líka með þess­um auka­skjálft­um því það nátt­úru­lega gef­ur vís­bend­ingu um að eitt­hvað sé að ger­ast.“

Landrisið í Svartsengi

Þegar gosið hef­ur ná­lægt virkj­un­inni í Svartsengi hef­ur starf­semi þess verið færð yfir í Reykja­nes­virkj­un þar sem finna má sömu aðstöðu.

Hrin­an sem nú mæl­ist er hins veg­ar rétt við Reykja­nes­virkj­un en Tóm­as seg­ir að það hafi í raun bara gerst í dag.

„Þess­ir skjálft­ar hafa verið al­veg á öll­um hryggn­um. Þetta er bara virkt svæði og er að hrist­ast og hef­ur gert það lengi. En eins og sak­ir standa þá er landrisið í Svartsengi og ef það gýs þá reikna menn með að það komi upp ein­hvers staðar á þess­ari Sun­hnúkaröð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert