Stjórnarráðið fær falleinkun í samskiptum

Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar.
Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar. mbl.is/Arnþór

„Ég verð bara að gefa stjórnarráðinu falleinkunn í samskiptum við sveitarfélagið í þessu tilviki,“ segir Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar.

Greint hefur verið frá að frá árinu 2023 hafi fjármálaráðuneytið ekkert unnið að samningi um úthlutun lóðar í Garðabæ undir fyrirhugað meðferðarheimili fyrir börn með fjölþættan vanda, sem stóð til að reisa á Rjúpnahæð.

Gleymdist að upplýsa bæjarstjórann

Almar taldi málið í farvegi hjá ráðuneytinu, en svo virðist sem gleymst hafi að upplýsa hann um hugsanlegar breytingar á staðsetningu heimilisins.

Í nóvember 2023 var fjármálaráðuneytið upplýst um það af hálfu mennta- og barnamálaráðuneytisins að til skoðunar væri að færa verkefnið yfir í Skálatún í Mosfellsbæ vegna seinkunar á lóðaúthlutun í Garðabæ og vegna þess að það væri talið hagkvæmara að standa að slíkri uppbyggingu í Mosfellsbæ.

Þá taldi fjármálaráðuneytið að mennta- og barnamálaráðuneytið myndi upplýsa Garðabæ um breytingarnar en svo var ekki gert.

Ekki hlutverk sveitarfélaga að kanna hver er með boltann

„Ef maður vill vera jákvæður þá er það jákvætt að ráðuneytin tala um málið með sama hætti en það er auðvitað alveg ótrúlegt að sveitarfélög þurfi að upplifa þetta“ segir Almar í samtali við mbl.is

„Það getur ekki verið okkar hlutverk að kanna hver er með boltann hjá þeim.“

Hann segir það mjög sárt að hafa þurft að lesa um að ákvörðun hafi verið tekin í mennta- og barnamálaráðuneytinu að slá ætti plön um heimili í Garðabæ af borðinu. Það hafi sveitarfélagið aldrei verið upplýst um.

„Við höfum þurft að lesa um það í yfirlýsingum ráðuneyta í fjölmiðlum.“

Hvetur ráðuneytin til að temja sér skýr samskipti

Hann segir mikilvægt mál vera undir og þó að það kunni að gerast að ríkisvaldið skipti um skoðun um ákveðin verkefni þurfi það að temja sér skýr samskipti.

„Viljayfirlýsing árið 2018 var upphaf málsins og þá gerum við ráð fyrir því ef málið dettur niður að það sé þá klárað á þann hátt. Ég hvet þessi tvö ráðuneyti til að tala betur saman og hafa það þá skýrt hver á að eiga samskiptin við sveitarfélagið.“

Verið aðgerðarlaus í nokkur ár og staðan versnað

Þá segir Almar forsvarsmenn sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafa fundað með þingmönnum höfuðborgarsvæðisins fyrir helgi. Þar hafi málið ekki verið tekið fyrir með beinum hætti þó að vissulega hafi verið rætt málefni barna með fjölþættan vanda og fleira til. Fundurinn hafi fyrst og fremst verið upplýsingafundur í báðar áttir.

„En það eina sem kom fram á þessum fundi er - og þess vegna er svo sárt að rifja sögu þessa máls upp varðandi meðferðarheimilið í Garðabæ - að okkur hefur bara tekist að vera nokkurn veginn aðgerðalaus í nokkur ár. Á meðan hefur staðan auðvitað bara versnað.“

Segir Almar málið vera grafalvarlegt og að ráðuneytin þurfi að gangast við að það þurfi að fara áfram og taka ákvarðanir.

„Á þessum fundi kom einmitt fram um málefni barna með fjölþættan vanda að þetta snerist ekki um að fá enn eina skýrsluna. Þetta snýst raunverulega um það að taka ákvarðanir.“

„Lóðin er þarna enn þá“

Varðandi meðferðarheimilið sem stóð til að reisa á Rjúpnahæð átti aðeins eftir að greiða úr fyrirkomulagi varðandi kostnað við gatnagerðargjöld.

Segir Almar að ef það yrði leyst stæði því ekkert til fyrirstöðu að halda áfram með verkefnið. Leiðinlegt sé að málið hafi þróast með þessum hætti.

„Þessu háttar þannig til að kostnaður við gatnagerð er meiri en við getum innheimt, bara lögum samkvæmt. Þá þarf að leysa úr því og við töldum okkur bara vera í opnu og eðlilegu samtali við stjórnvöld um það þangað til allt þagnaði en núna veit ég það, eftir á, hvað gekk á.“

Þá segist Almar þannig gerður að hann vilji gera hlutina upp. Málaflokkurinn sé hins vegar allt of mikilvægur til þess að dvelja við hvað fór af leiða í fortíðinni.

„Nú þurfum við bara að komast áfram og lóðin er þarna enn þá. Hún er samkvæmt skipulagi í þessa þágu. Ég er nýbúinn að ítreka erindi mitt til yfirvalda um það og við erum bara tilbúin í samtal sem verður þá vonandi styttra og hnökralausara.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert