Þingmenn mótmæla pappírsleysi

Skuldir Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra.
Skuldir Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra. mbl.is/Eyþór

Fjármálaráðuneytið hefur ákveðið að hætta að prenta þingskjöl til framlagningar á Alþingi. Einhverjir þingmenn eru ekki sáttir við það og mótmæltu ákvörðuninni.

Þetta má lesa í svari fjármálaráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is vegna ákvörðunarinnar.

„Í nokkur ár hefur ráðuneytið stefnt að því að hætta prentun og er ráðuneytið nú hætt að prenta þingskjöl til framlagningar á Alþingi,“ segir í svari ráðuneytisins.

Ákvörðunin tekin á undan tillögu starfshópsins

Starfshópur forsætisráðuneytisins um hagræðingu lagði til í upphafi mánaðar að hætta prentun þingskjala og sagði að kostnaðurinn við prentun næmi tugi milljóna króna árlega. Í dag eru alla­vega 30 ein­tök af öll­um stjórn­ar­frum­vörp­um send frá ráðuneyt­um til Alþing­is.

Aðeins er um að ræða fjármálaráðuneytið sem hefur ákveðið að hætta prentun en ekki er ljóst hversu mikið verður sparað á því.

Miðað við tölvupóstsamskipti skrifstofu Alþingis og fjármálaráðuneytisins þá var þessi ákvörðun tekin áður en starfshópurinn kynnti sína tillögu.

Þingmenn mótmæltu ákvörðuninni

Fram kemur í tölvupósti Alþingis að nokkrir þingmenn hafi mótmælt ákvörðun fjármálaráðuneytisins um að hætta prentun.

„[...] á fundi starfandi forseta með formönnum þingflokka ı́ gær kom ákveðið bakslag í́ þessa vegferð því fulltrúar nokkurra flokka mótmæltu því að hætt verði að prenta stjórnarmál,“ segir í póstinum frá skrifstofu Alþingis.

Ekki kemur fram hvaða þingmenn vildu áfram fá frumvörp á pappír. 

Hlynnt því að hætta prentun alfarið í haust

Þó kemur fram að Þórunn Sveinbjarnardóttir, sem þá var verðandi forseti Alþingis en er nú komin í embættið, hafi verið hlynnt því að hætta alfarið prentun þingskjala við upphafi þings næsta haust.

„Eftir samtal við verðandi forseta þá́ liggur fyrir að hún hyggst kynna fyrir formönnum þingflokka eftir að hún hefur verið kosin að þetta lokaskref þ.e. að hætta prentun stjórnarmála verði stigið við upphaf þings næsta haust,“ segir í tölvupósti frá skrifstofu Alþingis til fjármálaráðuneytisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert