Þrír úrskurðaðir í gæsluvarðhald í manndrápsmáli

Frá aðgerðum lögreglunnar í Kópavogi í gær.
Frá aðgerðum lögreglunnar í Kópavogi í gær. mbl.is/Karítas

Héraðsdómur Suðurlands hefur að kröfu lögreglustjórans á Suðurlandi úrskurðað þrjá til að sæta gæsluvarðahaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna allt til miðvikudagsins 19. mars næstkomandi, að því er fram kemur í tilkynningu.

Allir eru grunaðir um aðild að frelsissviptingu, fjárkúgun og manndrápi sem lögreglan á Suðurlandi hefur haft til rannsóknar frá því seint á mánudagskvöld.

Alls hafa átta verið handteknir í tengslum við rannsókn málsins en fimm verið látnir lausir úr haldi lögreglu. Rannsókninni miðar vel en er umfangsmikil og hefur lögreglan á Suðurlandi meðal annars notið aðstoðar lögregluembættanna á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum, ríkislögreglustjóra og embættis héraðssaksóknara.

Gæsluvarðhald tryggi rannsóknarhagsmuni

Spurður hvort þeir handteknu sem ekki hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald séu lausir allra mála svarar Jón Gunnar Þórhallsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi:

„Nei, það er ekkert sem segir það. Þeir eru frjálsir ferða sinna eins og staðan er núna. Rannsóknin heldur áfram.

Gæsluvarðhaldið er bara til að tryggja rannsóknarhagsmuni.“

Spurður hvort einhverjir hinna handteknu séu áfram vitni segir hann ekki unnt að veita upplýsingar um réttarstöðu þeirra að svo stöddu.

Jón Gunnar Þórhallsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi.
Jón Gunnar Þórhallsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi. mbl.is/Sigmundur Sigurgeirsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert