Töldu það ekki sitt að upplýsa bæjarstjórann

Viljayfirlýsing vegna verkefnisins var undirrituð í desember 2018 og vonir …
Viljayfirlýsing vegna verkefnisins var undirrituð í desember 2018 og vonir stóðu til að heimilið yrði tilbúið árið 2020. Samsett mynd

Frá árinu 2023 hefur fjármálaráðuneytið ekkert unnið að samningi um úthlutun lóðar í Garðabæ undir fyrirhugað meðferðarheimili fyrir börn með fjölþættan vanda, sem stóð til að reisa á Rjúpnahæð.

Bæjarstjórinn í Garðabæ taldi málið í farvegi hjá ráðuneytinu, en svo virðist sem gleymst hafi að upplýsa hann um hugsanlegar breytingar á staðsetningu heimilisins.

Í nóvember 2023 var fjármálaráðuneytið upplýst um það af hálfu mennta- og barnamálaráðuneytisins að til skoðunar væri að færa verkefnið yfir í Skálatún í Mosfellsbæ vegna seinkunar á lóðaúthlutun í Garðabæ og vegna þess að það væri talið hagkvæmara að standa að slíkri uppbyggingu í Mosfellsbæ. 

Þetta kemur fram í skriflegu svari fjármálaráðuneytisins til mbl.is um stöðuna á umræddu meðferðarheimili sem ítrekað hefur verið vísað til að muni rísa í Garðabæ. Viljayfirlýsing vegna verkefnisins var undirrituð í desember 2018 og vonir stóðu til að heimilið yrði tilbúið árið 2020.

Töldu mennta- og barnamálaráðuneytið upplýsa

Bæjarstjórinn í Garðabæ virðist hins vegar hafa staðið í þeirri meiningu að enn stæði til að reisa meðferðarheimili í sveitarfélaginu, enda hefur hann ekki verið upplýstur um annað.

Í svarinu frá fjármálaráðuneytinu segir að ráðuneytið hafi talið að mennta- og barnamálaráðuneytið myndi upplýsa sveitarfélagið. Það virðist þó ekki hafa verið gert.

„Ráðuneytið taldi það jafnframt ekki í sínum verkahring að upplýsa sveitarfélagið að hætt hefði verið við uppbygginguna í Garðabæ enda var það ekki þátttakandi að upphaflegri viljayfirlýsingu sem undirrituð var um verkefnið árið 2018.

Talið var að mennta- og barnamálaráðuneytið myndi upplýsa sveitarfélagið um breyttar forsendur í kjölfar þess að búið væri að fara nánar yfir fýsileika þess að standa uppbyggingu á þessari starfsemi á öðrum stað,“ segir í svari fjármálaráðuneytisins.

Taldi málið í farvegi hjá ráðuneytunum

Í samtali við mbl.is í byrjun mars sagði Almar Guðmundsson, bæjarstjóri í Garðabæ, staðsetningu meðferðarheimilisins hafa verið klára frá því áður en viljayfirlýsingin var gerð, en ákvörðun um byggingu nýs meðferðarheimilis var tekin árið 2015.

Þá hafði mennta- og barnamálaráðuneytið gefið mbl.is þau svör að ekki hefði náðst samkomulag um byggingu meðferðarheimilisins eða staðsetningu þess. Ekki væri þó útilokað að það myndi rísa í Garðabæ. Ekkert var þó minnst á Skálatún í Mosfellsbæ í þessu samhengi.

Kom þetta svar ráðuneytisins Almari spánskt fyrir sjónir enda taldi hann málið vera í farvegi hjá bæði mennta- og barnamálaráðuneytinu og fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Samkomulag um staðsetningu hafi legið fyrir en aðeins hafi átt eftir að greiða úr fyrirkomulagi varðandi kostnað við gatnagerðargjöld. Sagði Almar jafnframt að ýtt hefði við fulltrúum fjármálaráðuneytisins að minnsta kosti tvisvar frá árinu 2023, án þess að svör bærust.

Ráðuneytið tilbúið að ljúka ásættanlegum samningum

Í svari fjármálaráðuneytisins segir að drög að samningi um úthlutun lóðar vegna uppbyggingar meðferðarheimilis í Garðabæ hafi komið til skoðunar í ráðuneytinu í maí 2023.

„Gerðar voru athugasemdir við samningsdrögin af hálfu ráðuneytisins og hófust í kjölfarið viðræður við sveitarfélagið um breytingar á þeim samningsdrögum, einkum vegna greiðslufyrirkomulags og framsalsréttar á lóðinni.“

Þessi vinna stöðvaðist svo í nóvember 2023 þegar mennta- og barnamálaráðuneytið upplýsti að til skoðunar væri að færa verkefnið, líkt og áður sagði.

„Hafi forsendur um breytta staðsetningu af einhverjum ástæðum ekki gengið eftir er fjármála- og efnahagsráðuneytið eftir sem áður reiðubúið að reyna að ljúka ásættanlegum samningum við sveitarfélagið um úthlutun lóðarinnar í Garðabæ þannig að það standist viðmið um úthlutun lóða undir almannaþjónustustarfsemi,“ segir jafnframt í svari fjármálaráðuneytisins.

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra, vísaði í svör ráðuneytisins þegar mbl.is spurði hana fyrr í þessum mánuði út í stöðuna á fyrirhuguðu meðferðarheimili og út í ósamræmi í svörum bæjarstjórans í Garðabæ og ráðuneytisins.

Með meðferðarheimilið í skipulagi

Á þeirri lóð sem um ræðir í Garðabæ er eng­in gatna­gerð. Svæðið er óbyggt holt eins og staðan er núna og þarf því að ráðast í gatna­gerð frá grunni. Sagði Almar það ástæðuna fyrir því að kostnaður væri meiri en í sambærilegum málum. Sveitarfélagið hafi hins vegar viljað finna lausn á því í samvinnu við ráðuneytin.

„Við erum með meðferðar­heim­ilið í skipu­lagi og mynd­um gjarn­an vilja koma þessu góða máli áfram. Við þekkj­um það af umræðunni að það er miður að okk­ur hafi ekki tek­ist að fara hraðar yfir í mál­um sem þess­um,“ sagði Almar í byrjun mars.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert