Alfreð Erling Þórðarson hefur verið metinn ósakhæfur og þar með sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins í tvöföldu morðmáli í Neskaupstað í ágúst í fyrra. Honum er hins vegar gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun og að greiða aðstandendum hjónanna sem hann myrti samtals 31 milljón í bætur.
Þetta er niðurstaða Héraðsdóms Austurlands, en dómurinn féll fyrr í vikunni.
Fram kemur í dómi héraðsdóms að Alfreð sé talinn hættulegur samkvæmt dómkvöddum matsmanni og talið forgangsatriði að hann sé á réttargeðdeild til að tryggja bæði hans öryggi og öryggi starfsfólks fangelsa.
Í dóminum er komist að þeirri niðurstöðu að Alfreð hafi myrt hjónin og er vísað til fjölmargra atriða því til sönnunar.
Meðal gagna sem dómurinn vísar til eru framburður vitna sem sáu Alfreð á ferð við húsið og upptaka úr eftirlitsmyndavél sem sýndi hann nálægt húsinu á þeim tíma sem áætlað er að hjónin hafi látist og blóðug föt sem hann klæddist við handtöku og voru glögglega þau sömu og hann var í á eftirlitsupptökunni.
Þá var gerð DNA-rannsókn á blóði sem fannst á hamri sem hann var með í bifreið þegar hann var handtekinn í Reykjavík, en blóðið reyndist úr honum og hjónunum. Einnig reyndist blóðið á fatnaði hans úr hjónunum. Að lokum reyndust skóför á vettvangi passa við þá skó sem Alfreð klæddist, en skófarið hafði einkennandi mynstur. Voru það einu skóförin á vettvangi sem höfðu stigið í blóð.
Viðurkenndi Alfreð fyrir dómi að hafa verið á heimili hjónanna, en sagði þau hafa verið látin þegar hann kom á staðinn. Sagðist hann hafa fundið hamarinn á gólfi baðherbergis í íbúð hjónanna og að „vísindamennirnir“ hafi beðið hann um að taka þennan hamar með sér og taldi hann greinilegt að þau hafi notað hamarinn á hvort annað. Sagðist hann jafnframt hafa þrifið hamarinn í eldhúsvaskinum.
Teldur dómurinn út frá gögnum málsins hafið yfir skynsamlegan vafa að Alfreð hafi beitt hamrinum í atlögu gegn hjónunum og þar með fram komin lögfull sönnun þess að hann hafi veist að þeim í samræmi við ákæru.
Er niðurstaða dómsins því að hann hafi myrt hjónin. Hins vegar er samkvæmt almenningum hegningarlögum mælt fyrir að ekki skuli refsað þeim sem sökum geðveiki, andlegs vanþroska eða hrörnunar, rænuskerðingar eða annars samsvarandi ástands hafi verið alls ófærir á þeim tíma, er þeir unnu verkið, til að stjórna gerðum sínum.
Vísað er í greinargerð með almennum hegningarlögum þar sem segir: „Markmið refsingar er fyrst og fremst verndun almenns réttaröryggis og viðhald lögbundins þjóðskipulags. En auk þess fullnægir refsing réttlætistilfinningu almennings, er ekki sættir sig við það, að menn skerði órefsað mikilvæg réttindi annarra.“ Segir í dóminum að þessi sjónarmið mæli með því að ákvæðið um sakhæfi sé skýrt þröngt frekar en rúmt, enda sé um að ræða undantekningu frá þeirri meginreglu að mönnum sé refsað fyrir afbrot.
Því leiði það ekki til sakhæfisskorts ef menn hafi brenglað raunveruleikaskyn eða séu haldnir ranghugmyndum af völdum geðsjúkdóms, nema hann hafi alls ekki verið fær um að hafa stjórn á gerðum sínum.
Er í dóminum vísað í ítarlega og afdráttarlausa matsgerð geðlæknis og skýrslu hans fyrir dómi um afar bágborna geðhagi Alfreðs. Liggja þá einnig fyrir gögn úr skoðun annars geðlæknis kvöldið sem hann var handtekinn og skoðun réttarlæknis og skýrslugjöf Alfreðs hjá lögreglu og upptaka úr búkmyndavél lögreglu þegar hann var handtekinn.
Lýsti dómkvaddi matsmaðurinn því meðal annars fyrir dómi „hversu truflandi það hefði verið hversu ótrúlega rólegur ákærði væri gagnvart fyrirliggjandi atvikum sem hann hafi í raun lýst eins og vísindaskáldsögu eða hryllingsbókmenntum fremur en raunveruleika.“ Hann hafi einnig sýnt sömu ró gagnvart öðrum atvikum, eins og til að mynda er húsið hans hafi brunnið.
Lýsti geðlæknirinn fyrir dómi hvernig Alfreð hafi lýst „ógnvekjandi baráttu við Guð og djöfulinn og röðum einstaklinga sem fallið hefðu frá og hvernig mögulega væru tengsl þarna á milli. Þetta hafi verið vægast sagt óþægilegt og framandi að hlusta á. Enn fremur meðal annars að ákærði liti ekki á sig sem sjúkling eða sem veikan og hefði ekki innsæi í sjúkdóm sinn,“ eins og segir í dóminum.
Telur geðlæknirinn hins vegar ljóst að Alfreð sé með skýran og mjög alvarlegan geðrofssjúkdóm.
Sagði geðlæknirinn jafnframt að þegar um svona ranhugmyndaheim væri að ræða væri stundum eitthvert skipulag í gangi með eitthvert „skotmark“ en að í þessu tilviki hafi það ekki verið staðan. Alfreð hafi í raun aldrei lýst ásetningi eða illvilja í garð hjónanna og að ekkert sem flokkast geti til skynsamlegra svara geti skýrt af hverju hann hafi myrt þau.
Tekur hann fram að Alfreð viti að rangt sé að deyða og meiða fólk og í ljósi ranghugmynda hans sjái hann ekki neina aðra túlkun mögulega en að segja að hann hafi verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum á verknaðarstundu.
Tekur dómurinn undir þetta og metur Alfreð ósakhæfan og vísar meðal annars til þess að Alfreð hafi haft uppi hugmyndir um að ríkislögreglustjóri væri að ofsækja hann andlega.
Fréttin hefur verið uppfærð.