„Auðvitað á þetta bara að liggja fyrir“

Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar, er bjartsýnn á að sveitarfélagið verði komið með góða aðgerðaáætlun í menntamálum á næstu mánuðum.

Bæjaryfirvöld vinna að því að afla upplýsinga um námsmat grunnskólabarna í bænum til að fá heildaryfirsýn yfir stöðuna í menntamálum.

Verkefnið hófst á síðasta ári í kjölfar umfangsmikillar umfjöllunar mbl.is og Morgunblaðsins um vanda íslenska skólakerfisins og dræman árangur barna í alþjóðlegum samanburði.

Almar ræðir tækifæri og áskoranir í skólamálum í Dagmálum ásamt Ásdísi Kristjánsdóttur, bæjarstjóra Kópavogs.

Upplýsingar fastar í kerfum

Almar segir upplýsingar um námsmat hvers og eins nemanda liggja fyrir en annað gildi um upplýsingar um árangur bekkja og árganga.

„Er ekki skrítið að ég þurfi að ávarpa það sem sérstakt verkefni að við ætlum að nálgast námsmat barnanna? Auðvitað á þetta bara að liggja fyrir.“

„Verkefnið okkar er að ná fram þessum upplýsingum. Þær liggja auðvitað fyrir en þær eru því miður svolítið fastar ofan í upplýsingakerfum og fleira. Þetta er líka klassískt nútímaverkefni. Að sætta sig ekki við að gögnin liggi bara einhvers staðar, heldur hafa þau aðgengileg og nýta þau,“ segir Almar.

Almar segir upplýsingar um námsmat hvers og eins nemanda liggja …
Almar segir upplýsingar um námsmat hvers og eins nemanda liggja fyrir en annað gildi um upplýsingar um árangur bekkja og árganga. mbl.is/Eyþór

Byrja á að horfa á bæinn í heild

„Við vonumst sem sagt til þess í þessu verkefni að við náum þá að draga heildstæða stöðu yfir bæinn. Við byrjum þar – að horfa á bæinn í heild. Við erum ekki í fyrstu atrennu eins upptekin af því að horfa á skóla A versus skóla B. Við erum ekki að etja þeim saman. Við viljum bara að þeir hafi góð gögn og viti hvar þeir standi,“ segir Almar og heldur áfram:

„Við sjáum þá fyrir okkur að með vorinu verðum við komin með gott aðgerðaplan. Við erum til dæmis tilbúin í það að segja að það vantar samræmdan mælikvarða.“ 

Hann segir koma til greina að bíða eftir því að Miðstöð menntunar og skólaþjónustu ljúki vinnu við matsferilinn, sem verður hið nýja samræmda námsmat. 

Matsferillinn átti að vera tilbúinn árið 2022 en er enn í vinnslu. Ráðherra menntamála gerir ráð fyrir að leggja matsferil í stærðfræði og íslensku fyrir á næsta skólaári.

Börnin eiga það skilið

„En það getur vel verið að ég þurfi fyrir okkar hönd að eiga samtöl við Kópavogsbæ og fleiri öflug sveitarfélög og spyrja hvort við getum farið í verkefnið saman til þess að brúa bilið af því að við teljum það ekki eðlilegt að bíða eftir Menntamálastofnun í þessu tilviki varðandi þessi úrræði.“

Hann segir svona mál oft verða flókin í stjórnsýslunni. Þrátt fyrir góðan ásetning um að ljúka þeim snemma að þá geti þetta tekið tíma. 

„Ég tel bara að börnin okkar eigi það skilið að við séum fljót að vinna úr þessu. Ég verð tilbúinn fyrir okkar hönd að gera eitthvað þegar við vitum hvernig staðan er.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert