„Ég held með hvorugum“

Davíð Þór Jónsson.
Davíð Þór Jónsson. Ljósmynd/Árni Torfason

Sóknarpresturinn Davíð Þór Jónsson, sem leiddi Sósíalistaflokkinn í Suðvesturkjördæmi í síðustu kosningum, segir það leitt að átök innan flokksins hafi farið í fjölmiðla. Það hefði þótt betra að deilur hefðu verið leystar innan flokksins.

Greint hefur verið frá að Karl Héðinn Kristjánsson, forseti ungliðadeildar Sósíalistaflokksins, sagði af sér úr kosningastjórn flokksins í gær en í bréfi til félagsmanna sakaði hann Gunnar Smára Egilsson, formann framkvæmdastjórnar flokksins, um trúnaðarbrot, ofríki og andlegt ofbeldi.

Gunnar Smári boðaði í kjölfarið til skyndifundar og hefur nú komið fram að formenn innan Sósíalistaflokksins hafna ásökunum Karls Héðins.

Fólk með sterkar skoðanir og ákveðnar hugsjónir

Davíð Þór segist sjálfur ekki hafa komist á skyndifund Gunnars í gær. Fundurinn hafi verið á sama tíma og Íslensku tónlistarverðlaunin hafi verið veitt en þar var eiginkona Davíðs, Þórunn Gréta Sigurðardóttir, tilnefnd.

„Mér finnst leiðinlegt að vita að þetta gerðist með þessum hætti en það er bara eins og alls staðar þar sem fólk með sterkar skoðanir og ákveðnar hugsjónir kemur saman - það getur verið erfitt að allir séu elsku vinir allan tímann. Fólk nuddast saman og svoleiðis,“ segir Davíð í samtali við mbl.is.

Hann segir þó að það hljóti að hafa gerst í öllum stjórnmálaflokkum að fólk eigi ekki skap saman.

Fjölmiðlaumfjöllunin ekki að hjálpa flokknum

Aðspurður segist Davíð taka afstöðu með hvorki Karli né Gunnari í málinu.

„Ég stend fyrir utan þetta. Ég þekki Karl Héðin af góðu einu og Gunnar Smári er mjög ákafur og ákveðinn maður. Þeir eru mjög ólíkir persónuleikar þannig að það er ekkert skrýtið að þeir nuddist saman. En ég held með hvorugum og tek málstað hvorugs.“

Þá segir hann það leiðinlegt að ekki hafa náðst að leysa málið innan flokksins.

„Þessi fjölmiðlaumfjöllun er ekki að hjálpa sósíalistum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert