„Ég trúi ekki að þetta hafi gerst“

Drengurinn hafði loksins hætt sér út einn að leika þegar …
Drengurinn hafði loksins hætt sér út einn að leika þegar hópur drengja réðst á hann. mbl.is/Karítas

„Ég hef aldrei séð jafn mikla skelfingu í augum á nokkrum manni,“ segir Esther Einarsdóttir, móðir drengs í Breiðholtsskóla, sem varð fyrir fólskulegri árás jafnaldra sinna í gærkvöldi.

Drengurinn hafði hætt sér út að leika einn í fyrsta sinn í langan tíma með nýja hjólabrettið sitt um klukkan sex í gær þegar hópur fimm drengja réðst á hann.

„Þeir ráðast á hann, tækla hann niður í jörðina, sparka í höfuðið og magann á honum og berja hann. Þeir reyna svo að stela af honum hjólabrettinu, töskunni og húfunni,“ segir Esther og heldur áfram:

„Hann náði einhvern veginn á ótrúlegan hátt – ég skil ekki enn þá hvernig, að komast undan og hlaupa heim.“

Esther var heima og tók á móti drengnum sem var skelfingu lostinn.

„Hann grátbað mig um að við myndum flytja annað. Hann gæti bara ekki búið hérna lengur. Hann er ofboðslega aumur, bæði á líkama og sál. Aðallega þá á sálinni.“

Esther hefur tilkynnt málið til lögreglunnar.

Þorði ekki út en safnaði kjarki

Hvernig hefur hann það, drengurinn?

„Hann mætti í skólann. Það sem hjálpar honum er að stofan hans er staðsett við íþróttahúsið þannig hann þarf ekki að ganga í gegnum skólann til að mæta. Dagarnir í skólanum eru stuttir núna. Svo fer hann beinustu leið heim og er búinn að liggja fyrir síðan. Hann er ofboðslega brothættur og líður hræðilega, og mér auðvitað líka,“ segir Esther. 

„Ég trúi ekki að þetta hafi gerst.“

Drengurinn hafði ekki hætt sér út að leika sér einn í langan tíma vegna hræðslu.

„Hann er búinn að vera endalaust hræddur og náði loksins að safna kjarki í að fara einn út og það endaði svona.“

Hefur margoft íhugað að flytja

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem sonur Estherar verður fyrir ofbeldi af hálfu jafnaldra sinna.

Hvernig er að eiga dreng sem verður ítrekað fyrir ofbeldi?

„Það er bara – þetta brýtur mann niður endalaust. Ég er endalaust að reyna að berjast á hverjum einasta degi. Ég veit ekki. Það kemur einhvern tímann að þeim tímapunkti að maður getur ekki meir. Ég er algjörlega búin með alla orku. Það fer öll orka í það að halda barninu mínu öruggu í hverfinu.“

Esther segist margoft hafa íhugað að flytja úr hverfinu.

„En það er bara meira en að segja það, að gera það. Það er ekkert sem maður gerir bara einn, tveir og bingó. Svo er hann loksins kominn með sérúrræði í skólanum hér, sem ég veit ekki hvort hann fengi annars staðar,“ segir Esther.

„En á móti kemur að hérna getur hann ekki verið úti að leika sér. Hann er ekki öruggur hérna.“

Fer ekki aftur einn út í bráð

Morgunblaðið og mbl.is hafa fjallað ítarlega um ofbeldis- og eineltisvanda sem hefur þrifist í Breiðholtsskóla undanfarin ár. 

Nýr sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs borgarinnar hefur sagt að borgin þurfi að taka málin fastari tökum.

Hafið þið fundið fyrir miklum breytingum á undanförnum vikum?

„Ég hef ekki fundið fyrir neinum breytingum en ég hef heyrt frá fólki að það séu breytingar í gangi.“

Líður þér vel með að senda barnið þitt eitt út að leika sér?

„Hann fer ekki aftur einn út að leika sér í bráð. Ekki þar til það verða einhverjar breytingar. Þangað til fer hann út með einhverjum fullorðnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert