Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi, hvetur fólk til þess að standa saman og leita stuðnings hvert hjá öðru í kjölfar manndrápsmáls í Þorlákshöfn sem nú er til rannsóknar hjá lögreglu.
Þá hvetur hann fólk til þess að búa ekki til óþarfa sögusagnir af atburðarásinni og hvetur til hófstilltrar umfjöllunar fjölmiðla um málið.
Þetta kemur fram í pistli Elliða á heimasíðu hans ellidi.is
Elliði vildi ekki veita viðtal þegar mbl.is óskaði eftir því fyrr í dag en vísaði á framangreindan pistil.
„Ísland er lítið land þar sem fólk þekkir vel til hvers annars. Það getur ekki eingöngu leitt til sterkra tilfinningaviðbragða heldur einnig hættu á sögusögnum og óþarfa ágiskunum,“ segir Elliði í pistli sínum.
„Við almenningur gerum miklar kröfur til fjölmiðla og stólum á þá þegar kemur að útskýringum og skilningi á atburðum og atburðarás. Þeim mun mikilvægara er að fjölmiðlar gæti hófs í umfjöllun sinni og sérstaklega þegar kemur að hálfkveðnum vísum sem geta leitt til rangra ályktana,“ segir Elliði enn fremur.
Samhliða biður hann fólk um að veita lögreglu vinnufrið ásamt því sem hann hvetur lögreglu til að vinna hratt úr málinu.
„Á meðan lögreglan rannsakar málið er mikilvægt að samfélagið styðji vinnu hennar og virði ferlið. Óstaðfestar getgátur eða óþolinmæði gagnvart framgangi rannsóknarinnar geta valdið aðstandendum sárum og jafnvel spillt fyrir réttarferlinu,“ segir Elliði.
„Eftir voveiflegan atburð getur samfélagið fundið leiðir til að standa saman og leitað stuðnings hjá hvert öðru. Best að nálgast hann með yfirvegun, virðingu og samhug. Með því að styðja aðstandendur, leyfa lögreglunni að vinna sína vinnu og gæta ábyrgðar í upplýsingamiðlun getur samfélagið hjálpað sér sjálfu og þeim sem eru hvað mest að þjást.“