Fær húsnæði miðsvæðis: Hætt við umdeild áform

Nettó hefur fengið húsnæði miðsvæðis á Húsavík og fallið hefur …
Nettó hefur fengið húsnæði miðsvæðis á Húsavík og fallið hefur verið frá áform um að verslunin flytji í fyrirhugaðan verslunarkjarna í útjaðri bæjarins. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Samkaup hefur náð samningi við KSK eignir ehf. um leigu á Vallholtsvegi 8 á Húsavík. Húsnæðið er miðsvæðis í bænum en áður voru uppi áform um að verslunin myndi færast í fyrirhugaðan verslunarkjarna rétt fyrir utan Húsavík.

Í tilkynningu frá Samkaupum segir að gert sé ráð fyrir afhendingu rýmisins á tímabilinu 2028 til 2030. Alls er um að ræða tæplega 1.400 fermetra rými með ásættanlegt magn bílastæða og góðu aðgengi.

„Við höfum um langt skeið leitað lausna á verslunarmálum á Húsavík. Núverandi húsnæði Nettó verslunar er of lítið og þröngt og því er þessi lausn afar ánægjuleg. Nú tekur við frekari hönnun og skipulag og innan fárra ára mun Nettó opna glæsilega verslun að Vallholtsvegi 8,“ er haft eftir Gunnari Agli Sigurðssyni forstjóra Samkaupa í tilkynningunni.

Svona á framtíðar húsnæði Nettó á Húsavík að líta út.
Svona á framtíðar húsnæði Nettó á Húsavík að líta út.

Næsta hús fær líka andlitslyftingu

Þá er haft eftir Brynjari Steinarssyni, framkvæmdastjóra KSK eigna, að Nettó verði við Vallholtsveg 8 en að Vallholtsvegur 10 muni einnig fá góða andlitslyfingu þannig að báðar fasteignir myndi eina heild.

Til standi að hin nýja verslun verði verslunar- og þjónustumiðstöð.

„Fram undan eru því spennandi tímar í hönnun svæðisins sem og að taka samtal við heimamenn og rekstraraðila sem kunna að hafa áhuga á að koma að verkefninu. Samhliða hafa áform um byggingu nýs verslunarhúss í jaðri bæjarins verið lögð til hliðar,“ er haft eftir honum.

Skiptar skoðanir voru um þau áform að reisa verslunarkjarna utan bæjarins eins og mbl.is fjallaði um síðasta sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert