Andrea Sigurðardóttir
Í kjölfar Wintris-fyrirsátarinnar árið 2016 vildi Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, fá öll gögn sem málinu tengdust fram í dagsljósið en upplifði að áhugi fjölmiðla og almennings á því að leita sannleikans var ekki til staðar.
Þetta er meðal þess sem kemur í afmælisviðtali við Sigmund Davíð, formann Miðflokksins, í Dagmálum.
Skaðinn var skeður og þróuðust mál þannig að Sigmundur Davíð hrökklaðist úr forsætisráðherrastól. Sigurður Ingi Jóhannsson samflokksmaður hans tók við og hafði í kjölfarið formannsstólinn í Framsókn af Sigmundi einnig.
Spurður hvort það hafi breytt honum sem manneskju að ganga í gegnum svo mikið mótlæti segir Sigmundur Davíð:
„Já, já. En þetta var ekki fyrsta og ekki síðasta „hit job“ sem maður hefur farið í gegnum. En maður venst því og þetta er, myndi ég segja, tvennt ólíkt. Annars vegar það þegar þú ert að fást við raunverulega andstæðinga, jafnvel þótt þeir séu slottugir og misheiðarlegir og geta verið öflugir, og hins vegar þegar þú upplifir stungur í bakið eða svik félaga. Það er erfiðara myndi ég segja, yfirleitt. En ég er hérna enn, orðinn fimmtugur, og hef enn þá ýmis verk að vinna.“
Ertu búinn að fyrirgefa fornum fjendum?
„Já, sagði ekki Kennedy einhvern tímann: „Fyrirgefðu óvininum þínum en aldrei gleyma nöfnum þeirra“.“