Glímdi við veikindi og sætti barsmíðum

Samsett mynd/mbl.is/Eggert/Sigurður Bogi

Maðurinn úr Þorlákshöfn sem lést varð fyrir barsmíðum og var þvingaður til að láta fé af hendi. Þetta herma heimildir mbl.is. Enn liggur þó ekki fyrir hvort maðurinn hafi verið þvingaður til að stíga inn í bifreið nærri heimili sínu í Þorlákshöfn áður en að fjárkúguninni kom. 

Þrír hafa verið dæmdir í gæsluvarðhald vegna málsins. Annar tveggja karlmanna er þekktur ofbeldismaður en hinn ungur maður á 19. aldursári. Voru þeir í slagtogi saman. Þriðja manneskjan sem er í gæsluvarðhaldi er sögð kona samkvæmt heimildum RÚV.  

Hefur glímt við veikindi 

Maðurinn sem lést var íbúi í Þorlákshöfn á sjötugsaldri. Hann hefur glímt við geðræn veikindi sem valdið hafa persónuleikaröskun og er sagður hafa sótt læknisþjónustu að undanförnu af þeim sökum.

Lögregla fékk tilkynningu í fyrrakvöld um að maðurinn hefði farið af heimili sínu og að óttast væri um hann. Hann fannst þungt haldinn í Gufunesi í Reykjavík og lést svo skömmu síðar.

Tálbeituhópur af Suðurlandi

Eins og fram kom á mbl.is í gær eru þrír tálbeituhópar á Íslandi sem lagt hafa eins konar gildrur fyrir meinta barnaníðinga. Hluti hópsins, sem hefur hvað mest tengsl við Suðurland, var handtekinn fyrst um sinn í málinu í gær. Fimm manns var sleppt eftir skýrslutöku. 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert