Jarðskjálftahrinan heldur áfram

Um 400 jarðskjálftar hafa mælst við Reykjanestá síðastliðinn sólarhring.
Um 400 jarðskjálftar hafa mælst við Reykjanestá síðastliðinn sólarhring. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jarðskjálftahrinan sem hófst við Reykjanestá, suðvestast á Reykjanesskaga, eftir hádegi í gær heldur áfram og seint í gærkvöld mældist skjálfti að stærðinni 3,5. Skjálftarnir hafa fundist í Grindavík.

Að sögn Sigríðar Magneu  Óskarsdóttur, náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands, hafa um 400 jarðskjálftar mælst á svæðinu síðastliðinn sólarhring og þar af um 200 frá miðnætti. Stærsti skjálftinn mældist 3,5 að stærð klukkan 23.25 í gærkvöld og 00.40 í nótt mældist skjálfti að stærðinni 2,7.

„Það er búin að vera töluverð jarðskjálftavirkni í nótt og þessar hrinur geta haldið áfram í einhvern tíma. Það er ómögulegt að segja til um hvenær þetta fjarar út,“ segir hún.

Síðast var jarðskjálftahrina úti fyrir Reykjanestá í lok desember 2024 en  2023 hafa fimm jarðskjálftahrinur orðið á sama svæði og virknin er núna.

Sigríður segir að jarðskjálftarnir séu mögulega gikkskjálftar vegna breytinga á spennusviði á Reykjanesskaganum samhliða jarðhræringum síðustu ára.

Fimm skjálftar við kvikuganginn á Sundhnúkagígaröðinni

Við kvikuganginn á Sundhnúkagígaröðinni hafa mælst fimm skjálftar síðastliðinn sólarhring og eru það færri skjálftar en mældust sólarhringinn á undan. 

Aflögunarmælingar sýna að landris heldur áfram á svipuðum hraða og síðustu vikur. Kvika heldur því áfram að safnast fyrir undir Svartsengi og hefur rúmmál hennar aldrei verið meira eftir að goshrinan á Sundhnúksgígaröðinni hófst í desember 2023.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert