„Þetta er flókið verkefni en það verður að gera eitthvað,“ segir Örn Orrason, yfirmaður sölu og þróunar hjá Farice.
Farice vinnur þessa dagana að þróun og útfærslu varaleiðar fjarskipta um gervihnetti. Tilgangurinn er að tryggja lágmarksnetsamband ómissandi samfélagsinnviða við útlönd ef til þess kæmi að fjarskiptasamband um alla sæstrengi við Ísland myndi rofna á sama tíma.
Greint var frá því í Morgunblaðinu á dögunum að Landhelgisgæslan hefði lagt aukinn þunga í vöktun sæstrengja við Ísland í kjölfar umferðar óþekktra skipa á hafinu við landið. Skip af þessu tagi hafa einnig verið á ferðinni í breskri lögsögu og undan ströndum nágrannaþjóða okkar í Skandinavíu. Sem kunnugt er hafa Rússar verið sakaðir um að standa að skemmdarverkum á sæstrengjum í Eystrasalti og víðar.
Örn greindi frá stöðu verkefnisins á hádegisfundi í Hörpu í gær. Fundurinn var á vegum Skýs, sem er félag fyrir fólk og fyrirtæki í upplýsingatækni, og bar yfirskriftina Ísland ótengt. Umfjöllunarefnið var áhættumat og viðbragðsáætlanir nokkurra innlendra aðila komi til mikilla áfalla í tengingum til landsins.
Hann segir að vinnan gangi vel og kerfið sé komið í tilraunafasa. Reiknistofa bankanna er þegar komin með beina tengingu við kerfið og fleiri aðilar munu bætast í hópinn innan tíðar. Meðal þeirra eru stofnanir og fyrirtæki í fluggeiranum, heilbrigðisgeiranum og bankageiranum. „Markmiðið er að koma á umferð og halda landinu gangandi á bandvídd sem væri 1-2% af þeirri bandvídd sem hér er vanalega,“ segir Örn.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag