Björgunarsveitir af Vesturlandi leita nú í Borgarfirði undan ströndum Borgarness, nærri Grjótey.
Tilkynning barst um klukkan hálfníu í kvöld, samkvæmt upplýsingum frá Jóni Þór Víglundssyni, upplýsingafulltrúa Landsbjargar.
Jón Þór kveðst ekki geta gefið upplýsingar um eðli tilkynningarinnar en segir björgunarsveitir úr Borgarnesi, Akranesi og Borgarfirði taka þátt í aðgerðinni sem er undir stjórn lögreglu.
Segir Jón Þór í samtali við mbl.is að meðal annars sé notast við dróna við leitina. Samkvæmt heimildum mbl.is er talið hugsanlegt að maður hafi farið í sjóinn.
Aðspurður segir Jón Þór að kafarar hafi ekki verið kallaðir út.