Mögulega setning sem fellur í hita leiksins

Þorbjörg Sigríður ræddi við mbl.is um ummæli Ásthildar Lóu.
Þorbjörg Sigríður ræddi við mbl.is um ummæli Ásthildar Lóu.

„Ég held að Ásthildur Lóa verði sjálf að svara fyrir þessi ummæli – þetta er mögulega einhver setning sem fellur í hita leiksins.“

Þetta segir Þor­björg Sig­ríður Gunn­laugs­dótt­ir dóms­málaráðherra, spurð álits á ummælum Ásthildar Lóu Þórsdóttur menntamálaráðherra um að ekki sé hægt að treysta íslenskum dómstólum.

Ásthild­ur Lóa sagðist í viðtali „löngu hætt að gera ráð fyr­ir rétt­læti hjá ís­lensk­um dóm­stól­um“, eft­ir að hún laut í lægra haldi gegn ís­lenska rík­inu í skaðabóta­máli.

Hafði hún stefnt ríkinu vegna aðgerða sýslu­manns­ins á höfuðborg­ar­svæðinu sem Ásthild­ur og eig­inmaður henn­ar töldu vera lög­brot.

„Ég deili ekki þessum áhyggjum Ásthildar“

Spurð út í alvarleika þess að samráðherra láti slík ummæli falla segist Þorbjörg, sem dómsmálaráðherra landsins, bera fullt traust til íslenskra dómstóla og að ekki sé nokkur ástæða til annars.

„Íslenskir borgarar geta auðvitað allir – ráðherrar þar með taldir – leitað réttar síns fyrir dómstólum þegar þeim þykir á þá hallað. Ég styð þann rétt heilshugar, enda búum við í réttarríki, en tek ekki undir þessi ummæli að nokkru leyti,“ segir Þorbjörg í samtali við mbl.is.

„Ég er auðvitað ráðherra málaflokksins og horfi til þess að við erum leiðandi þjóð í mannréttindamálum og búum í réttarríki og ég er stolt af þeim árangri. Ég mun auðvitað alltaf tala fyrir þeim gildum sem íslenskt réttarríki byggir á,“ bætir hún við.

„Ég deili ekki þessum áhyggjum Ásthildar.“

Enginn bragur að því að dómsmálaráðherra hafi skoðun á málinu

Hefurðu lesið dóminn í máli Ásthildar Lóu?

„Nei, ég ætla nú bara að játa berum orðum að það hef ég ekki gert. Ég lenti snemma í morgun, var á kvennaþingi Sameinuðu þjóðanna þar sem ég er búin að vera á fundum síðustu daga og við tók hefðbundinn vinnudagur í ráðuneytinu.“

Þannig að þú hefur ekki beina skoðun á hvort niðurstaðan sé sanngjörn?

„Nei, það hef ég svo sannarlega ekki. Dómstólar hafa dæmt í þessu máli og ég held að það sé enginn bragur að því að dómsmálaráðherra hafi skoðun á því, nema síður sé.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert