Ferðamanni sem ekkert hafði spurst til síðan á laugardagskvöld var bjargað fyrr í dag af björgunarsveitinni Ísólfi á Seyðisfirði.
Eins og greint var frá sigldu björgunarbátur frá Ísólfi og Hafbjörgin inn í Loðmundarfjörð í leit að manninum og eftir að dróni frá áhöfn Hafbjargar var settur á loft komu björgunarmenn auga á manninn þar sem hann stóð á kletti í fjörunni og veifaði til þeirra.
Ánægður settist hann í Hafbjörgina og fékk heita súpu og orkudrykk til að næra sig. Hafði hann þá verið á ferðinni síðan á sunnudag og sofið undir berum himni þar sem frost fór niður í að minnsta kosti 2 gráður, án svefnpoka eða tjalds.
Maðurinn hafði nært sig á jurtum sem hann fann og taldi ætar og næringarríkar ásamt því að drekka vatn.
„Hann sagði við björgunarmenn að hann hefði reynt að ná athygli fiskibáta með því að blikka vasaljósi sem hann hafði meðferðis, án árangurs, en þegar hann sá björgunarskipið og bátinn sigla inn Loðmundarfjörð, var hann þess fullviss að nú yrði honum bjargað.
Hann var svo fluttur til Neskaupstaðar og á fjórðungssjúkrahúsið til aðhlynningar,“ sagði Landsbjörg.