Jón Gunnar Þórhallsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segist ekkert geta tjáð sig nánar um þá atburðarás sem átti sér stað og leiddi til dauða mannsins sem fannst látinn í Gufunesi á þriðjudagsmorgun.
Málið er rannsakað sem frelsissvipting, fjárkúgun og manndráp.
Í tilkynningu lögreglu fyrr í kvöld sagði að ráðist hefði verið í húsleitir og lagt hald á bíla í tengslum við rannsóknina.
Jón Gunnar vildi ekki tjá sig spurður sérstaklega hvort lögreglu hefði tekist að hafa uppi á hugsanlegu fé sem kann að hafa verið kúgað út úr hinum látna.
„Það er atriði sem ég er ekki að fara að tjá mig um.“
Um frekari húsleitir í tengslum við málið segir Jón Gunnar ekkert slíkt standa til þó það sé ómögulegt að segja hvert rannsóknin leiði lögreglu.
„Við erum náttúrulega á frumstigi þó svo mikil vinna sé búin. Við erum að fá yfirsýn og það fer eftir því hvaða nýjar upplýsingar koma upp hvort við gerum það eða ekki. Það er ekkert ólíklegt og alveg möguleiki.“
Lögregla tilkynnti fyrr í kvöld að annar maður hefði verið handtekinn í tengslum við málið. Jón Gunnar segir nýja þætti koma upp í rannsókninni og upplýsingar sem lögregla verði að bregðast við. Átti það við um handtöku dagsins.
Lögreglan á Suðurlandi hefur við rannsókn málsins notið liðsinnis lögregluembættanna á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum sem og embættis ríkislögreglustjóra og héraðssaksóknara. Jón Gunnar segir þá aðstoð vera af ýmsum toga og það samstarf sé enn í gangi.
„Við njótum til dæmis liðsinnis tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.“
Lögregla hefur einnig notið liðsinnis almennings en spurður nánar út í þá aðstoð segir Jón Gunnar að fólk hafi til dæmis gefið lögreglu ábendingar um mannaferðir, komið með hugleiðingar um málið, afhent myndefni úr eftirlitsmyndavélum og mælaborðsmyndavélum í bifreiðum.
„Það er í raun efni af öllum toga.“