Ólafur Kr. Guðmundsson umferðaröryggissérfræðingur segir að takmörkuð götulýsing og sterk vinnulýsing geti blindað ökumenn á framkvæmdasvæðinu milli Hvassahrauns og Hafnarfjarðar þar sem unnið er að tvöföldun Reykjanesbrautar
„Þetta er allt saman grútskítugt og þegar slysið varð þarna í haust voru ekki steinar á milli akreina.“
Þar vísar Ólafur í alvarlegt bílslys sem varð á veginum í október. Hann lýsir atburðinum þannig að starfsmaður álversins hafi verið á leið til vinnu og blindast af vinnulýsingu með þeim afleiðingum að ökutæki skullu saman.
„Ung kona, annar ökumannanna, er lömuð upp að hálsi eftir slysið. Ástæðan er annars vegar takmörkuð götulýsing og svo blindandi vinnulýsing á móti, en mjög slæmt skyggni var þegar slysið varð – myrkur og rigning. Eftir slysið voru settir upp steinar milli akreina en vinnulýsingin er enn óbreytt. Í lögregluskýrslu um slysið var ekkert minnst á áhrif vinnuljóssins og áhrif þess hafa ekki verið rannsökuð.“
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag