Rannsókn lögreglunnar á Suðurlandi á andláti manns á sjötugsaldri frá Þorlákshöfn er á viðkvæmu stigi. Embættið mun hugsanlega veita frekari upplýsingar síðar í dag.
Þetta segir Jón Gunnar Þórhallsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi.
Í tilkynningu lögreglu í gær kom fram að átta hefðu verið handtekin í tengslum við rannsókn lögreglu sem snýr að manndrápi, frelsissviptingu og fjárkúgun. Fimm hefur þegar verið sleppt.
Greint var frá því á mbl.is í gær að þrír hefðu verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Allir eru grunaðir um aðild að frelsissviptingu, fjárkúgun og manndrápi.
Jón Gunnar segir lögreglu ekki hafa handtekið neinn frá því að tilkynning var gefin út.
Hann vill ekki veita upplýsingar um þá sem sitja í gæsluvarðhaldi, hversu margir séu með stöðu sakbornings eða hvort lögregla sé enn að leita að einhverjum í tengslum við rannsóknina.
Ríkisútvarpið greinir frá því að hópurinn hafi kúgað margar milljónir af hinum látna áður en honum var ráðinn bani.
Jón Gunnar segist aðeins geta staðfest að fjárkúgun sé til rannsóknar hjá lögreglunni. Hann vildi hvorki staðfesta að fjármunir hefðu farið á milli einstaklinga né hver upphæðin hefði þá verið.
Fjölmiðlar hafa greint frá því að hluti af þeim sem voru handtekin í tengslum við rannsóknina tilheyri einnig hópi ungmenna sem hafi staðið fyrir svokölluðum tálbeituaðgerðum, þar sem gengið er í skrokk á mönnum sem telja sig vera að mæla sér mót við börn.
Jón Gunnar vill ekki staðfesta það. Þá vill hann heldur ekki veita upplýsingar um hvort að málið sem lögreglan rannsaki nú hafi verið tálbeituaðgerð.
Þá segist hann ekki geta veitt neinar frekari upplýsingar um rannsóknina.