Segir að stóru málin vanti

Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eyþór

Ekki er komið inn á nokkur af stærstu málunum sem geta litað fjármál hins opinbera á komandi árum í nýrri skýrslu fjármálaráðherra um langtímahorfur í efnahagsmálum og opinberum fjármálum. Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknarflokksins, vakti athygli á þessu í sérstakri umræðu um stöðu efnahagsmála í aðdraganda fjármálaáætlunar á Alþingi í dag.

Sagði Stefán skýrsluna draga fram mikilvægar forsendur um þróun samfélagsins og lýðfræðilegra breytinga næstu árin, en að ýmislegt vantaði.

Segir innviðaskuld vanta

Í fyrsta lagi sagði hann lítið sem ekkert fjallað um innviðaskuld eða uppbyggingu innviða sem muni líklega taka 10 til 15 ár og kosta tugi milljarða árlega. „Um er að ræða grundvallaratriði við mat á þróun opinberra fjármála. Ekkert sjálfstætt mat er lagt á slíkan kostnað eða ábata,“ sagði Stefán, heldur væri aðeins talað með almennum hætti um innviði og samspil framleiðni og hagvaxtar.

Ekkert um mögulega hækkun til varnarmála

Í öðru lagi sagði hann að ekkert væri tekið á mögulegri aukningu til varnarmála.

Hefur mikið verið rætt um að til aukins kostnaðar gæti komið vegna þeirrar stöðu sem hefur verið að teiknast upp í Úkraínu og samskipta Evrópu og Bandaríkjanna. Þannig hafi ríki Atlantshafsbandalagsins á sínum tíma sett sér markmið um að verja 2% af landsframleiðslu í varnarmál. Er nú umræða meðal bandalagsríkja um að þurfa jafnvel að hækka þetta markmið upp í 3% eða jafnvel 5% á næstu fimm til tíu árum.

Í umfjöllun mbl.is nýlega var bent á að 2,5% af landsframleiðslu Íslands næmi um 115 milljörðum, en í dag ver Ísland um 5 milljörðum í varnarmál árlega og hefur svo varið tæplega 6 milljörðum í stuðning til Úkraínu yfir þriggja ára tímabil.

Stefán sagði í ræðu sinni að ef miðað væri við 2% af landsframleiðslu í varnarmál af ýmsu tagi væri um að ræða tugmilljarða útgjöld á ári.

Nær skýrslan tilgangi sínum?

Í þriðja lagi nefndi Stefán óvissuna um þróun tollamála þvert á landamæri. Tók hann fram að skýrslan fjalli vissulega um vaxandi spennu milli ríkja, tolla, stríð og viðskiptablokkir, en að lítið sé um nákvæma eða sundurliðaða greiningu á afleiðingum þessara þátta.

„Því er spurning: Nær skýrslan því fullum tilgangi sínum? Getur þingið í raun rætt um þróun efnahagsmála og opinberra fjármála til lengri tíma ef ekki er búið að greina nánar þessa grundvallar óvissuþætti? Þarf hugsanlega að endurmeta forsendur skýrslunnar í ljósi atburða síðustu daga sem marka munu samfélags- og atvinnuþróun næstu áratugi?“ spurði Stefán að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert