Segir að stóru málin vanti

Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eyþór

Ekki er komið inn á nokk­ur af stærstu mál­un­um sem geta litað fjár­mál hins op­in­bera á kom­andi árum í nýrri skýrslu fjár­málaráðherra um lang­tíma­horf­ur í efna­hags­mál­um og op­in­ber­um fjár­mál­um. Stefán Vagn Stef­áns­son, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins, vakti at­hygli á þessu í sér­stakri umræðu um stöðu efna­hags­mála í aðdrag­anda fjár­mála­áætl­un­ar á Alþingi í dag.

Sagði Stefán skýrsl­una draga fram mik­il­væg­ar for­send­ur um þróun sam­fé­lags­ins og lýðfræðilegra breyt­inga næstu árin, en að ým­is­legt vantaði.

Seg­ir innviðaskuld vanta

Í fyrsta lagi sagði hann lítið sem ekk­ert fjallað um innviðaskuld eða upp­bygg­ingu innviða sem muni lík­lega taka 10 til 15 ár og kosta tugi millj­arða ár­lega. „Um er að ræða grund­vall­ar­atriði við mat á þróun op­in­berra fjár­mála. Ekk­ert sjálf­stætt mat er lagt á slík­an kostnað eða ábata,“ sagði Stefán, held­ur væri aðeins talað með al­menn­um hætti um innviði og sam­spil fram­leiðni og hag­vaxt­ar.

Ekk­ert um mögu­lega hækk­un til varn­ar­mála

Í öðru lagi sagði hann að ekk­ert væri tekið á mögu­legri aukn­ingu til varn­ar­mála.

Hef­ur mikið verið rætt um að til auk­ins kostnaðar gæti komið vegna þeirr­ar stöðu sem hef­ur verið að teikn­ast upp í Úkraínu og sam­skipta Evr­ópu og Banda­ríkj­anna. Þannig hafi ríki Atlants­hafs­banda­lags­ins á sín­um tíma sett sér mark­mið um að verja 2% af lands­fram­leiðslu í varn­ar­mál. Er nú umræða meðal banda­lags­ríkja um að þurfa jafn­vel að hækka þetta mark­mið upp í 3% eða jafn­vel 5% á næstu fimm til tíu árum.

Í um­fjöll­un mbl.is ný­lega var bent á að 2,5% af lands­fram­leiðslu Íslands næmi um 115 millj­örðum, en í dag ver Ísland um 5 millj­örðum í varn­ar­mál ár­lega og hef­ur svo varið tæp­lega 6 millj­örðum í stuðning til Úkraínu yfir þriggja ára tíma­bil.

Stefán sagði í ræðu sinni að ef miðað væri við 2% af lands­fram­leiðslu í varn­ar­mál af ýmsu tagi væri um að ræða tug­millj­arða út­gjöld á ári.

Nær skýrsl­an til­gangi sín­um?

Í þriðja lagi nefndi Stefán óviss­una um þróun tolla­mála þvert á landa­mæri. Tók hann fram að skýrsl­an fjalli vissu­lega um vax­andi spennu milli ríkja, tolla, stríð og viðskipta­blokk­ir, en að lítið sé um ná­kvæma eða sund­urliðaða grein­ingu á af­leiðing­um þess­ara þátta.

„Því er spurn­ing: Nær skýrsl­an því full­um til­gangi sín­um? Get­ur þingið í raun rætt um þróun efna­hags­mála og op­in­berra fjár­mála til lengri tíma ef ekki er búið að greina nán­ar þessa grund­vall­ar óvissuþætti? Þarf hugs­an­lega að end­ur­meta for­send­ur skýrsl­unn­ar í ljósi at­b­urða síðustu daga sem marka munu sam­fé­lags- og at­vinnuþróun næstu ára­tugi?“ spurði Stefán að lok­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert