Þau sjö sveitarfélög sem ekki höfðu sett sér reglur um stuðningsþjónustu samkvæmt lögum um félagsþjónustu þegar könnun Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála var framkvæmd eru Dalabyggð, Grindavíkurbær, Húnabyggð, Skagabyggð, Skagaströnd, Suðurnesjabær og Vogar.
Það sveitarfélag sem hafði ekki sett sér neinar af þeim átta reglum sem athugunin náði til var Dalabyggð.
Þetta kemur fram í skriflegu svari stofnunarinnar við fyrirspurn mbl.is. Stofnunin vill þá taka fram að meginmarkmið athugunarinnar hafi verið kortlagning á stöðu reglna og uppfærslu þeirra samkvæmt gildandi lögum þar sem slík kortlagning hafði ekki farið fram áður.
Þá sé mikilvægt að ítreka það sem kom fram í frétt mbl.is um málið í gær að sveitarfélögin hafi frest til 15. september til að gera úrbætur.
Jafnframt skuli tekið fram að sum sveitarfélög hafi þegar tekið til við að gera úrbætur, líkt og fram kemur í skýrslu stofnunarinnar.
Eins og fram kemur í frétt mbl.is frá í gær var Dalabyggð með samning í gildi um árabil við Borgarbyggð um veitingu bæði félagsþjónustu og barnaverndarþjónustu en sá samningur hafði fallið úr gildi nokkrum mánuðum fyrir athugun Gæða- og eftirlitsstofnunar. Samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu er það að hefja úrbætur hvað varðar gerð reglna.