Tekur málið til umfjöllunar

Vilhjálmur Árnason, Sjálfstæðisflokki, er formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins. Nefndin …
Vilhjálmur Árnason, Sjálfstæðisflokki, er formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins. Nefndin fundaði í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur ákveðið að fjalla nánar um beiðni Evu Hauksdóttur, lögmanns Páls Steingrímssonar skipstjóra, þess efnis að Alþingi skipi rannsóknarnefnd til þess að fara ofan í saumana á aðkomu Ríkisútvarpsins að hinu svokallaða byrlunarmáli.

Þetta staðfestir Vilhjálmur Árnason, formaður nefndarinnar. Hann segir í samtali við Morgunblaðið að hann hafi upplýst nefndarmenn um beiðni Evu og að á fundi í gærmorgun hafi verið ákveðið að fela starfsmanni nefndarinnar að gera útdrátt úr erindinu sem beiðninni fylgdi.

„Þegar við höfum farið yfir þann útdrátt munum við taka afstöðu til þess hver næstu skref verða,“ segir Vilhjálmur. Bendir hann á að nefndin geti í kjölfarið stofnað til frumkvæðismáls á sínum vettvangi og kallað til sín gesti til þess að skýra ólíkar hliðar málsins.

Aðhaldshlutverk

„Meginverkefni nefndarinnar er að hafa eftirlit með ráðherrum og ráðuneytum þeirra en hér er mál sem við þurfum að skoða í fullri alvöru. Hjá nefndarmönnum komu fram sjónarmið þess efnis að stíga þyrfti varlega til jarðar, þar sem þarna ætti fjölmiðill í hlut. Fjölmiðlar gegna aðhaldshlutverki en það þarf einnig að spyrja spurninga um hverjir veita þeim aðhald og sinna eftirliti gagnvart þeim.“

Segir Vilhjálmur aðspurður að nefndin þurfi að fá tækifæri til þess að ræða málið nánar. Það sé hins vegar hans skoðun að mikilvægt sé að fá botn í það hver aðkoma Ríkisútvarpsins var að þessu sérstæða máli.

„Það vakna fjölmargar spurningar um aðkomu stofnunarinnar. Og þarna þarf meðal annars að skýra betur hvar mörkin liggja þegar kemur að heimildaöflun. Það er einnig mikilvægt að hafa í huga að þarna er um að ræða ríkisstofnun sem hafði aðkomu að málinu en flutti aldrei fréttir af því,“ útskýrir Vilhjálmur.

Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert