Það verður þurrt og bjart sunnan heiða á landinu í dag en él á Norður- og Austurlandi fram að hádegi. Hitinn verður á bilinu 0 til 8 stig, mildast syðra, en víða verður vægt næturfrost.
Á morgun er gert ráð fyrir suðvestan 8-15 m/s en vindur verður hægari sunnantil. Það verður dálítil væta á vestaverðu landinu en léttskýjað fyrir austan. Hitinn verður á bilinu 4 til 8 stig.
Í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands segir að þegar líða fer á á laugardaginn snúist vindur til sunnanáttar og á sunnudag og mánudag er útlit fyrir sunnan strekking með vætu á sunnan- og vestanverðu landinu. Með sunnanáttinni hlýnar í veðri og hitastigið verður 5-10 stig á sunnudag og mánudag.