Landsréttur staðfesti í dag dóm héraðsdóms yfir Guðmundi Elís Briem Sigurvinssyni en hann var dæmdur til þriggja ára fangelsisvistar fyrir að nauðga konu í Vestmannaeyjum í september 2021.
Guðmundur hefur áður verið dæmdur til fangelsisvistar fyrir stórfellda líkamsárás á hendur fyrrum sambúðarkonu auk brots gegn nálgunarbanni.
Guðmundur bar við minnisleysi vegna ölvunar samkvæmt dómi Landsréttar og var þannig ekki til frásagnar um samskipti sín við konuna eftir að þau höfðu komið sér fyrir í herbergi hennar.
Konan gaf hins vegar skýra lýsingu á háttsemi hans eftir að þau hófu samfarir með samþykki beggja. Þá hafi Guðmundur gerst grófur og ekki sinnt beiðni konunnar um að stöðva atferlið heldur hafið að beita hana ofbeldi og nauðung.
Landsréttur tók undir mat héraðsdóms að frásögn konunnar hafi verið trúverðug og fengi stoð í öðrum sönnunargögnum málsins.
Landsréttur leit til þess til þyngingar dómsins að brot Guðmundar hefði verið gróft, haft alvarlegar afleiðingar fyrir konuna og að hann hefði brotið gróflega gegn hennar kynfrelsi.
Honum „til málsbóta“ kom dráttur sem hafði orðið á málsmeðferð.
Ákvað rétturinn með vísan til þess og með hliðsjón af sakaferli Guðmundar að dæma hann til þriggja ára fangelsisvistar auk þess sem honum var gert að greiða konunni tvær milljónir króna í miskabætur sem og allan áfrýjunarkostnað málsins.