Stéttarfélagið VR neitar að upplýsa hvernig biðlaunaákvæði í ráðningarsamningi fyrrverandi formanns félagsins, Ragnars Þórs Ingólfssonar, var orðað í samningi hans.
VR svarar því ennfremur ekki hvort félagið hafi skoðað lagaleg sjónarmið um hvort Ragnar Þór ætti rétt á greiðslunum í ljósi aðstæðna við brotthvarf hans úr starfi.
Orðalag biðlaunaákvæðis í ráðningarsamningi Ragnars Þórs skiptir miklu máli í samhengi við það hvort Ragnar Þór hafi í reynd átt rétt á biðlaunum, þrátt fyrir að hafa látið af störfum að eigin frumkvæði og gengið samstundis í annað hærra launað starf er hann var kjörinn á þing. Hafi ekki verið tekið fram sérstaklega í ráðningarsamningi hans að hann ætti rétt á óskertum biðlaunum óháð öðrum launagreiðslum á biðlaunatíma, átti hann ekki rétt á þeim miðað við dómafordæmi.
Ragnar var með um 1,3 milljónir króna á mánuði í laun sem formaður VR, en mánaðarlegt þingfararkaup hans, ásamt álagsgreiðslu vegna nefndarformennsku og fastri kostnaðargreiðslu, nemur um 1,85 milljónum króna á mánuði.
Hugtakið biðlaun kemur oftar fyrir í ráðningarsamningum opinberra starfsmanna, en þó eru dæmi þess að hugtakið sé notað í samningum á einkamarkaði, líkt og í tilfelli Ragnars Þórs. Um biðlaun ríkisstarfsmanna er fjallað í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Samkvæmt þeim lögum skerðast biðlaunagreiðslur ríkisstarfsmanna, gangi þeir í önnur launuð störf á biðlaunatíma, sem launum hans á biðlaunatíma nemur og falla biðlaunagreiðslur niður ef launin eru jöfn eða hærri biðlaununum. Lögin gilda eðli máls samkvæmt ekki um ráðningarsamning Ragnars, en leiða má líkur að því að biðlaun á einkamarkaði séu tekin upp eftir þeim.
Á einkamarkaði eru biðlaun í reynd hliðstæð launagreiðslum á uppsagnarfresti þar sem ekki er krafist vinnuframlags. Dæmi eru um að ágreiningur verði um það hvort starfsmaður geti á uppsagnarfresti horfið til annarra starfa en samt notið launa á uppsagnarfresti.
Dómafordæmi eru skýr um það að það að starfsmaður hefji önnur störf á uppsagnarfresti geti haft áhrif á fjárhæð kröfu starfsmanns vegna launa á uppsagnarfresti, og í tilfelli Ragnars Þórs á það sannarlega við.
Árið 1997 komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu, með dómi nr. 144, að frá kröfu trésmiðs nokkurs til launa á uppsagnarfresti skyldu dragast atvinnuleysisbætur og laun sem trésmiðurinn aflaði annars staðar á uppsagnarfesti.
Hæstiréttur vísaði í það fordæmi árið 2002, með dómi nr. 159, þegar dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að draga skyldi laun sem einstaklingur þénaði annars staðar á uppsagnarfresti frá launakröfu viðkomandi.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag