Vinnustaðurinn „óstarfhæfur“

Einum starfsmanni Félagsbústaða var fyrirvaralaust sagt upp störfum á starfsmannafundi …
Einum starfsmanni Félagsbústaða var fyrirvaralaust sagt upp störfum á starfsmannafundi sem haldinn var föstudaginn í síðustu viku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Vinnustaðurinn er í miklum sárum og uppnámi eftir þennan atburð að hann er í raun óstarfhæfur eins og sakir standa. Starfsfólk upplifir hræðslu, kvíða, óöryggi og langar ekki til að mæta til vinnu nú í fyrramálið,“ segir í bréfi sem stjórn Félagsbústaða var sent sl. sunnudag, en það var gert í kjölfar þess að einum starfsmanni Félagsbústaða var fyrirvaralaust sagt upp störfum á starfsmannafundi sem haldinn var föstudaginn í þarsíðustu viku.

Bréfið, sem ber yfirskriftina „Neyð í starfsemi Félagsbústaða – tafarlausri íhlutun stjórnar óskað“, og stílað á Ellý Öldu Þorsteinsdóttur, stjórnarformann Félagsbústaða, er skrifað af Eyþóri Friðrikssyni sem unnið hafði hjá Félagsbústöðum í tæp fjögur ár sem sérfræðingur nýbygginga.

Atburður sem tók óvænta stefnu

„Ástæða þess að ég sendi ykkur þetta bréf er atburður sl. föstudag sem tók óvænta stefnu þegar mér var sagt upp störfum á starfsmannafundi í kjölfar þess að ég bar upp spurningar sem tengdust að mestu breyttu verklagi við tímaskráningar starfsfólks og ósk um viðbrögð Sigrúnar við niðurstöðum úr Stofnun ársins þar sem starfsánægja vinnustaðarins hefur mælst afar lág,“ segir m.a. í bréfinu, en Sigrún sú sem í bréfinu er nefnd er Árnadóttir og er forstöðumaður Félagsbústaða.

„Augljóst var að spurningar þessar voru henni ekki þóknanlegar en þær voru á vörum langflestra starfsmanna á fundinum og ég fann mig knúinn til að spyrja þeirra. Viðbrögð hennar voru að kalla mig upp, á miðjum fundi, tala við mig af óvirðingu og dónaskap fyrir framan alla starfsmenn, teymdur tafarlaust inn í fundarherbergi með þjósti þar sem hún byrjaði á að segja að ég ætti að fara heim í dag. Svo bar hún upp hótun um að hún ætti kannski að segja mér upp, endurtók svo að hún ætlaði að segja mér upp og lauk svo samtali þessu með því að tilkynna mér tafarlausa uppsögn. Mér var sýnd mikil niðurlæging af framferði Sigrúnar og ekki síður í eftirmálum þeirra þar sem hún vísaði mér á dyr með miklu offorsi eins og ég hefði gerst sekur um að brjóta af mér alvarlega í starfi og að mér væri ekki treystandi. Hún afhenti mér ruslapoka til að setja muni mína í og á meðan ég tók saman stóð hún ógnandi yfir mér, virti ekki persónulega fjarlægð á milli okkar og í eitt skipti stuggaði hún við mér! Óhætt er að segja að allt starfsfólk hafi fylgst agndofa með þessari uppákomu, upplifði mikinn óhug og stóð stuggur af. Stór hluti starfsfólks yfirgaf vinnustaðinn eftir þessa uppákomu til að sýna stuðning í verki gagnvart mér auk þess sem fólki var stórlega misboðið,“ segir Eyþór í bréfinu.

Vísað á dyr

En þegar þarna var komið var ekki öll sagan sögð.

„Þegar ég var búinn að taka saman mín plögg með hana yfir mér eins og ég væri óþekkur krakki, þá vísaði hún mér á dyr og tók af mér lykla og auðkenningar. Fljótlega eftir að ég yfirgaf skrifstofuna fór hún sjálf út og lét ekki sjá sig meira þann daginn, sem í sjálfu sér er varhugaverð hegðun af hálfu stjórnanda þegar uppþotið var slíkt að vinnustaðurinn varð óstarfhæfur út daginn. Sumir höfðu á orði við mig í samtölum að því leið eins og einhver hefði dáið. Í raun hefði þurft áfallahjálp fyrir suma eftir þessa árás á mig,“ segir Eyþór sem kveðst hafa fengið símtöl og skilaboð frá stórum hluta starfsfólksins sem ætti það sameiginlegt að vera í áfalli, upplifa óvissu og hafa vanþóknun á framferði forstöðumannsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert