Vísbendingar um aukin fasteignaumsvif

Um 300 nýbyggingar hafa verið teknar úr sölu á höfuðborgarsvæðinu …
Um 300 nýbyggingar hafa verið teknar úr sölu á höfuðborgarsvæðinu á síðustu tveimur mánuðum. mbl.is/Hari

Vísbendingar eru um aukin fasteignaumsvif á fyrstu mánuðum ársins en álíka margar íbúðir voru teknar úr sölu á fyrstu tveimur mánuðum ársins og í ársbyrjun 2021.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS).

Segir þar að íbúðum sem hafa verið teknar af sölu hafi fjölgað hratt síðustu mánuði samkvæmt upplýsingum sem HMS hefur unnið úr fasteignaauglýsingum.

1.127 eignir teknar af sölu í febrúar

„Í febrúar voru um 1.127 eignir teknar af sölu þar sem 70% þeirra eru staðsettar á höfuðborgarsvæðinu, 17% þeirra í nágrenni höfuðborgarsvæðis og 13% þeirra annars staðar á landinu. Hægt er að áætla umsvif á fasteignamarkaði út frá fjölda íbúða sem teknar eru af sölu á vefnum fasteignir.is í hverjum mánuði, þar sem sterk fylgni hefur verið á milli þeirra og fjölda útgefinna kaupsamninga mánuði seinna,“ segir í tilkynningunni.

Segir í tilkynningunni enn fremur að á fyrstu tveimur mánuðum síðasta árs hafi fleiri eignir verið teknar úr sölu, en þá hafði eftirspurn á fasteignamarkaði stóraukist vegna atburðanna í Grindavík.

Álíka mikið og þegar vextir voru í sögulegu lágmarki

Fjöldi eigna sem hafi verið teknar úr sölu í janúar og febrúar hafi verið um helmingi fleiri í ár en á sama tímabili 2022 og 2023. Álíka margar fasteignir hafi verið teknar úr sölu á sama tímabili árið 2021 en þá voru vextir á húsnæðislánum í sögulegu lágmarki.

Kemur fram að af þeim 1.127 íbúðum sem hafa verið teknar af sölu í febrúar á landinu öllu voru 230 þeirra nýbyggingar, en til samanburðar hafi 200 nýbyggingar verið teknar af sölu í janúar.

„Hlutfall nýbygginga sem teknar voru af sölu var hæst í nágrenni höfuðborgarsvæðisins, eða um 39%, en til samanburðar var hlutfall slíkra eigna sem teknar voru af sölu 20% í janúar. Hlutfallið er sambærilegt á milli mánaða á höfuðborgarsvæðinu, eða í kringum 21% í janúar og febrúar.“

Um 300 nýbyggingar teknar af sölu á höfuðborgarsvæðinu

Segir í tilkynningunni að um 300 nýbyggingar hafi verið teknar af sölu á höfuðborgarsvæðinu á síðustu tveimur mánuðum, 153 í janúar og 150 í febrúar. Hafi fjöldi þeirra tæplega tvöfaldast frá því í nóvember og desember í fyrra en þá voru um 86 eignir teknar af sölu í nóvember og 80 í desember.

„Hlutfall nýbygginga af framboði hefur því lækkað á síðustu tveimur mánuðum frá hágildi hlutfallsins um síðustu áramót. Um áramót voru um 47% allra íbúða til sölu á höfuðborgarsvæðinu nýjar íbúðir og hefur hlutfall þeirra ekki mælst svona hátt frá því að gagnasöfnun hófst á fasteignaauglýsingum í byrjun árs 2018.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert