Andlát: Gerður Pálmadóttir

Ljósmynd/Aðsend

Gerður Pálmadóttir, frumkvöðull og athafnakona, lést 4. mars síðastliðinn, 77 ára að aldri.

Gerður fæddist í Reykjavík 24. febrúar 1948 og ólst þar upp. Foreldrar hennar voru Pálmi Pétursson kennari og Aðalheiður Árný Árnadóttir.

Gerður úrskrifaðist úr Verzlunarskóla Íslands 1966. Hún fór í nám í Myndlista- og handíðaskólanum í Reykjavík og útskrifaðist þaðan úr grafíkdeild árið 1980. Meðan hún var í námi fór hún að selja notaðar flíkur á útimarkaði á Lækjartorgi og hóf í framhaldi rekstur á versluninni Flónni í Hafnarstæti og síðar á Vesturgötunni. Hún var löngum kennd við þá verslun en hætti rekstrinum 1989 þegar hún flutti til Hollands.

Í Hollandi stofnaði hún fyrirtækið Freezing Point þar sem hún hannaði og framleiddi fatnað með góðum árangri. Samhliða þeim rekstri stofnaði hún fyrirtækið ARTitIS árið 1995 sem rak verslanir á Schiphol-flugvelli, þar sem áhersla var lögð á íslenska hönnun og handverk. Þá verslun rak Gerður til ársins 2008 þegar reksturinn var seldur. Hún fékk úthlutað pláss í Westergasfabrik í Amsterdam, gamalli gasverksmiðju sem breytt var í Miðstöð lista, skapandi greina og viðskipta. Þar rak Gerður hönnunar- og listagallerí þar til hún flutti heim til Íslands 2015 er hún stofnaði Hugvirkjun, með áherslu á að efla íslenskt hugvit.

Gerður lét samfélagsmál sig ávallt mikið varða. Hún framleiddi um tíma fatnað í Bangladess og meðan á dvöl hennar stóð þar stofnaði hún lítinn skóla með enskukennslu fyrir börn svo þau gætu búið sig betur undir framtíðina. Hennar helsti ráðgjafi var Muhammad Yunus, einn stofnenda Grameen banka sem fékk friðarverðlaun Nóbels 2006 fyrir að veita fátækum hagstæð lán.

Þá var Gerður einn stofnenda Félags aðstandenda alzheimersjúklinga og starfaði þar í stjórn.

Börn Gerðar með Gunnari Pálssyni eru Pálmi Þór, f. 1969, og Svanhvít, f. 1971. Barnabörnin eru Sunna Rún, Gunnar Tómas, Ernir Þór og Gerður Lind og barnabarnabörnin Tómas Þór og drengur nýfæddur.

Útför Gerðar fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju föstudaginn 21. mars klukkan 15.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert