Andlát: Sigurður Guðmundsson

Sigurður Guðmundsson, lögmaður og bóndi í Flekkudal í Kjós, lést eftir stutt en erfið veikindi á Landspítalanum 10. mars síðastliðinn, 67 ára að aldri.

Sigurður fæddist í Reykjavík 10. maí 1957. Foreldrar Sigurðar voru hjónin Guðmundur Jónsson vélfræðingur, f. 27.4. 1932, d. 3.2. 2025, og Jóna Gróa Sigurðardóttir, f. 18.03. 1935, d. 17.9. 2015, fyrrverandi borgarfulltrúi Reykjavíkurborgar.

Sigurður gekk í Laugalækjarskóla, Réttarholtsskóla, Verzlunarskóla Íslands og lauk síðar námi í lögfræði frá Háskóla Íslands.

Meðfram námi starfaði hann við hin ýmsu störf, m.a. hjá Tollvörugeymslunni og sem blaðamaður á Morgunblaðinu. Lengst af starfaði hann sem sjálfstætt starfandi lögmaður og bóndi í Flekkudal í Kjós þar sem hann sinnti hestaræktun, kinda- og geitabúskap með sambýliskonu sinni Guðnýju G. Ívarsdóttur, f. 30.1. 1956, viðskiptafræðingi, fyrrverandi sveitarstjóra Kjósarhrepps og bónda í Flekkudal.

Þau Guðný og Sigurður hafa bæði lagt sitt af mörkum til samfélagsins í Kjósinni, hvort sem er í gegnum félagsstörf, sveitarstjórn eða lögmennsku, auk þess að stunda hrossarækt með eftirtektarverðum árangri. Sigurður tók að sér hin ýmsu ábyrgðarhlutverk í gegnum tíðina. Hann var meðal annars formaður hestamannafélagsins Adams í Kjós til nokkurra ára. Hann var í stjórn hestamannafélagsins Harðar í Mosfellsbæ, tók að sér nefndarstörf fyrir Landssamband hestamanna og var um tíma í Framtalsnefnd Reykjavíkurborgar.

Börn Sigurðar og Lovísu Geirsdóttur leikskólakennara eru Ísak, f. 1984, og Aldís Gróa, f. 1992. Sonur Guðnýjar úr fyrra sambandi er Jóhannes Björnsson, f. 1979. Barnabörn Sigurðar og Guðnýjar eru níu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert