Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra, segist draga orð sín um vantraust á íslenskum dómstólum til baka. Hún segist hafa hlaupið á sig og að hún beri traust til dómkerfisins þó að hún sé áfram svekkt eftir niðurstöðu héraðsdóms í sínu máli.
Þetta sagði Ásthildur við blaðamann mbl.is eftir ríkisstjórnarfund nú fyrir skömmu.
„Við erum löngu hætt að gera ráð fyrir réttlæti hjá íslenskum dómstólum,“ sagði Ásthildur í viðtali eftir að dómur féll henni í óvil í skaðabótamáli þar sem ríkinu var stefnt vegna aðgerða sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, sem Ásthildur og eiginmaður hennar töldu vera lögbrot.
Hafa þessi ummæli vakið mikla athygli og gagnrýni meðal annars frá samráðherra hennar í ríkisstjórninni sem sagðist ekki deila áhyggjum Ásthildar.
„Ég svara því bara þannig að ég var bara verulega svekkt í fyrradag og get náttúrulega ekki dæmt alla dómstóla landsins út frá mínu máli,“ sagði Ásthildur eftir ríkisstjórnarfundinn.
Samræmist þetta þinni stöðu?
„Ég er að segja, ég hljóp á mig.“
Ertu tilbúin að draga þetta til baka?
„Já ég er að því. Ég er að segja að ég get ekki fullyrt þetta um alla dómstóla landsins.“
Þannig að þú berð traust til dómkerfisins?
„Já ég geri það þó ég sé svekkt með mitt mál.“