Breytingar á skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands taka gildi á miðnætti í kvöld. Ráðuneytum fækkar úr tólf í ellefu en menningar- og viðskiptaráðuneyti verður lagt niður.
Heiti þriggja ráðuneyta breytast og málaflokkar verða einnig fluttir á milli ráðuneyta.
Forseti Íslands hefur undirritað þrjá forsetaúrskurði vegna breytinganna.
Forsætisráðuneytið tekur við framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ frá innviðaráðuneyti.
Atvinnuvegaráðuneytið – nýtt heiti á matvælaráðuneytinu – tekur við málefnum viðskipta, ferðamála og neytendamála frá menningar- og viðskiptaráðuneytinu, og málefnum iðnaðar frá háskóla-, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu.
Dómsmálaráðuneytið tekur við jafnréttismálum, mannréttindum og mannréttindasamningum, að undanskildum Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. Einnig tekur ráðuneytið við ábyrgð á móttökumiðstöð umsækjenda um alþjóðlega vernd – frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og málefni Þjóðskrár frá innviðaráðuneytinu.
Félags- og húsnæðismálaráðuneyti – nýtt heiti á félags- og vinnumarkaðsráðuneyti – tekur við húsnæðis- og mannvirkjamálum og skipulagsmálum frá innviðaráðuneytinu og málefnum aldraðra, að undanskilinni heilbrigðisþjónustu frá heilbrigðisráðuneytinu.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið tekur við áfengislögum frá dómsmálaráðuneytinu.
Innviðaráðuneytið tekur við fjarskiptum frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti auk þess að horfið var frá fyrirhuguðum breytingum á heiti ráðuneytisins í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti. Heiti samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra verður því aftur innviðaráðherra.
Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneyti – nýtt heiti á háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti – tekur við málefnum fjölmiðla, höfundaréttar, safnamála, íslensku, lista og menningar frá menningar- og viðskiptaráðuneytinu.
Mennta- og barnamálaráðuneytið tekur við málefnum framhaldsfræðslu og Fræðslusjóðs frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu.
Umhverfis-, orku- og loftsráðuneytið tekur við skógrækt og landgræðslu frá matvælaráðuneytinu.
Þá verða engar efnislegar breytingar á málaflokkum utanríkiráðuneytisins en skerpt á því að ráðuneytið fari með gerð fiskveiðisamninga við erlend ríki. Áður hefur verið greint frá flutningi netöryggissveitar CERT-IS til ráðuneytisins frá Fjarskiptastofu.