Heldur hefur dregið úr jarðskjálftahrinunni sem hófst við Reykjanestá í fyrradag en síðustu 12 klukkustundir hafa mælst þar tæplega 70 skjálftar en þeir voru rúmlega 200 í fyrrinótt.
„Það hefur aðeins dregið úr ákafa hrinunnar. Hún datt niður um miðjan dag í gær til kvölds en hún svo tók sig aðeins upp aftur eftir miðnætti. Skjálftarnir voru klárlega færri í nótt en síðustu sólarhringa,“ segir Ingibjörn Andrea Bergþórsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
Margar skjálftahrinur hafa átt sér stað á svæðinu allt frá árinu 2021 en síðan 2023 hafa fimm jarðskjálftahrinur orðið á sama svæði og virknin er núna.
Að mati jarðvísindamanna á Veðurstofunni eru jarðskjálftarnir líklega svokallaðir gikkskjálftar vegna breytinga á spennusviði á Reykjanesskaganum, samhliða jarðhræringum þar síðustu ár.
Spurð út í stöðuna við Sundhnúkagígaröðina segir Ingibjörg að áfram sé reiknað með að það geti byrjað að gjósa þar hvað úr hverju en síðastliðinn sólarhring hafa mælst 13 litlir skjálftar við kvikuganginn.
„Við erum á tánum og erum viðbúin eldgosi. Við vitum það af fyrri reynslu að það geti byrjað að gjósa með mjög skömmum fyrirvara,“ segir hún.