Mennta- og barnamálaráðherra kannast ekki við að teknar hafi verið ákvarðanir um breytingar á staðsetningu meðferðarheimilis sem til hefur staðið að reisa í Garðabæ fyrir börn með fjölþættan vanda.
Segir ráðherra „störukeppni“ hafa staðið yfir á milli fjármálaráðneytisins og Garðabæjar varðandi heimilið árum saman. Því hafi ekkert þokast með framkvæmdina.
Í svari fjármálaráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is í vikunni kom fram að mennta- og barnamálaráðuneytið hefði upplýst fjármálaráðuneytið um það í nóvember 2023 að til skoðunar væri að færa verkefnið yfir í Skálatún í Mosfellsbæ, vegna seinkunar á lóðaúthlutun í Garðabæ og vegna þess að það væri talið hagkvæmara að standa að slíkri uppbyggingu í Mosfellsbæ.
Því hefði ekkert verið unnið að samningi um úthlutun lóðar í Garðabæ undir heimilið frá þeim tíma, að sagði í svari fjármálaráðuneytisins. Sveitarfélagið Garðabær var ekki upplýst um málið og taldi Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar, málið vera í farvegi hjá ráðuneytunum tveimur.
Í samtali við mbl.is fyrr í þessum mánuði sagði hann að ýtt hefði verið við fulltrúum ráðuneytisins að minnsta kosti tvisvar frá árinu 2023, án þess að svör hefðu fengist.
Í svari fjármálaráðuneytisins kom einnig fram að ráðuneytið hefði ekki talið það í sínum verkahring að upplýsa sveitarfélagið um hugsanlegar breytingar varðandi staðsetningu.
Ásthildur segir engar formlegar ákvarðanir hafa verið teknar um breytta staðsetningu meðferðarheimilisins. Mennta- og barnamálaráðuneytið hafi aldrei upplýst fjármálaráðuneytið um slík áform.
„Við fundum einhvern póst þar sem komu fram óformlegar vangaveltur um að störukeppni á milli Garðabæjar og fjármálaráðuneytisins hefði staðið í tvö eða fjögur ár, og ekkert gerst og þá er sagt að kannski þurfi að snúa sér að einhverju öðru. En það var aldrei nein ákvörðun tekin um það og ekkert formlegt,“ sagði Ásthildur Lóa, mennta- og barnamálaráðherra, í samtali við mbl.is eftir ríkisstjórnarfund fyrr í dag.
Hún segir engin svör hafa borist til mennta- og barnamálaráðuneytisins frá fjármálráðuneytinu fyrr en í byrjun mars á þessu ári.
„Þannig ég veit ekki alveg hvað hefur átt sér stað eða hvað hefur verið í gangi, en ég veit að menntamálaráðuneytið gerði allt sem það gat,“ segir Ásthildur, en hún er hissa á umræðu um meðferðarheimilið.
Þannig það hefði ekki átt að þurfa að stöðva vinnu við þetta mál í fjármálaráðuneytinu?
„Var eitthvað að gerast í fjármálaráðuneytinu þar á undan?“ spyr Ásthildur. Hún bendir á að skrifað hafi verið undir viljayfirlýsingu vegna byggingu heimilisins árið 2018 og því hafi ekki verið skrýtið að svo mörgum árum síðar hafi mennta- og barnamálaráðuneytið viljað skoða fleiri valkosti varðandi staðsetningu.
„Ef það á að hætta við eitthvað þá hlýtur það að þurfa að gerast með formlegum hætti.“
Ákvörðun um byggingu nýs meðferðarheimilis fyrir börn með fjölþættan vanda var tekin árið 2015, skrifað var undir viljayfirlýsingu árið 2018, en árið 2025 hefur enn lítið þokast í málinu, þó einhver undirbúningsvinna hafi átt sér stað.
Hver er staðan, hvenær erum við að sjá að það fari eitthvað að gerast þarna?
„Ég hef ekki hugmynd, ég hef ekki hugmynd hvað er að gerast með það. Ég veit að við erum að ýta á eftir hlutum og veit að við erum að ýta á eftir fleiri hlutum. Við erum að biðja um að það þarf að fara að byggja upp, við erum að tala um Farsældartún, við erum að tala um Gunnarsholt, við erum með fullt af lausnum, það þarf uppbyggingu á Stuðlum.
Það verður bara að koma í ljós hvort þetta gengur einhvern tíma eftir með heimilið í Garðabæ. Svo getur vel verið að við þurfum að endurskoða það núna þegar staðan er orðin eins og hún er og við erum að skoða alls konar, en það er seinni tíma umræða,“ segir Ásthildur.
Farsældartún, sem Ásthildur vísar til, er á lóð í Mosfellsbæ sem þar sem horft er til uppbyggingar á þjónustu og úrræðum fyrir börn með fjölþættan vanda. Til stóð að meðferðarheimili yrði opnað í Blönduhlíð í Farsældartúni í desember síðastliðnum, en í ljós kom að húsnæðið stóðst ekki brunúttekt, þrátt fyrir endurbætur. Starfseminni var í febrúar fundin tímabundin staðsetning á Vogi.
Í Gunnarsholti á hins vegar að vera langtímameðferðarheimili fyrir drengi, en ekkert slíkt hefur verið starfandi frá því Lækjarbakka var lokað í apríl á síðasta ári vegna myglu.
En nú er ég bara að tala um nýtt meðferðarheimili, það liggur fyrir að það þarf að reisa nýtt meðferðarheimili, hvenær er raunhæft að horfa til þess að það fari eitthvað að gerast?
„Ég bara hef ekki hugmynd um það, það hefur ekki getað gerst síðan 2018, hvernig á að ég að geta svarað því?“
Svo varðandi Gunnarsholt, það er talað um að það verði í fyrsta lagi tilbúið í haust...
„Já við erum að reyna að flýta því. Það þarf að ýta á framkvæmdasýsluna og þá aðila sem vinna að því. Við erum alltaf að reyna að ýta.“
Þannig það er möguleiki á að það verði opnað fyrr?
„Ég get ekki lofað því, af því það er ekki í mínum höndum, ég er ekki með hamarinn og naglana.“