Einn starfsmaður Norðuráls er slasaður eftir vinnuslys í álveri Norðuráls á Grundartanga í dag.
Sólveig Bergmann upplýsingafulltrúi Norðuráls segir að talið sé að sprungið öryggi í aðveitustöð álversins hafi valdið slysinu. Önnur kerlínan hafi farið út en unnið sé nú að greiningu og viðgerð á henni.
Svokallaður ljósbogi hafi myndast, en það geti gerst þegar rafstraumur fer um gas, og var umræddur starfsmaður að sinna viðhaldi í rafveitunni þegar slysið varð.
Viðbragðsaðilar voru kallaðir til og hann var fluttur til aðhlynningar á sjúkrahúsi en Sólveig kveðst ekki geta veitt nánari upplýsingar um líðan mannsins að svo stöddu.