Ekki séð neitt þessu líkt

Frá björguninni í Loðmundarfirði í gærmorgun.
Frá björguninni í Loðmundarfirði í gærmorgun. Ljósmynd/Landsbjörg

„Hann var gríðarlega þakklátur, þetta hefur ekki verið sérstök dvöl,“ segir Helgi Freyr Ólason, skipstjóri á björgunarskipinu Hafbjörg, í samtali við mbl.is, spurður fregna af ferðamanninum sem bjargað var í gær.

Hann segir manninn, sem er 42 ára og frá Bandaríkjunum, hafa verið heppinn með veður. Hann hafi verið vel á sig kominn miðað við aðstæður við komuna í björgunarskipið, en þó meiddur á fæti.

Þá segir Helgi sögu ferðamannsins stórmerkilega.

Sjálfur hafi hann ekki séð eða heyrt af nokkru sambærilegu, en maðurinn var týndur í fjóra daga og nærðist á jurtum og fersku vatni.

„Þá var adrenalínsjokkið búið hjá honum“

„Hann var ótrúlega brattur þegar hann kom til okkar. Við hlúðum að honum og gáfum honum heita súpu en hann var eitthvað lemstraður greyið, þess vegna var tekin ákvörðun um að fara með hann á sjúkrahúsið á Norðfirði,“ segir Helgi.

Var hann eitthvað slasaður?

„Já hann var eitthvað slasaður á fæti, tognaður eða eitthvað svoleiðis. Hann var bara í öðrum skónum.“

Telur Helgi því líklegt að maðurinn hafi þurft á læknisaðstoð að halda, auk næringar og hvíldar. Segir hann manninn hafa verið alveg ósofinn.

Aðspurður segir Helgi að fljótlega hafi dregið af manninum við komuna í skipið.

„Þá var adrenalínsjokkið búið hjá honum. Þannig að við bara spjölluðum við hann alla leiðina og hlúðum vel að honum.“

Helgi segir ferðamanninn – 42 ára frá Bandaríkjunum – hafa …
Helgi segir ferðamanninn – 42 ára frá Bandaríkjunum – hafa verið vel á sig kominn miðað við aðstæður. Ljósmynd/Landsbjörg

Sjáum hann veifandi í fjöruborðinu

„Þetta eru bara ótrúlegar aðstæður og eitthvað sem að við vorum sammála um að enginn í áhöfninni átti von á. Við vorum ofboðslega ánægðir að sjá hann í fjöruborðinu,“ segir Helgi og talar um augnablikið þegar maðurinn fannst.

Hann sigldi björgunarskipinu inn fjörðinn, þar sem einn lítill björgunarbátur frá Seyðisfirði var kominn á staðinn. Sá hafði orðið var við eitthvað töluvert utar í fjörunni sem þeir héldu að gæti verið bakpoki.

„Við komum til hans þarna inni í botni á firðinum og vorum búnir að samræma aðgerðir og bara við það að hefja leit – það er drónahópur sem sagt í björgunarskipinu – og við sammælumst um það að sigla út fjörðinn og skoða þetta betur með drónanum.

Á meðan við erum að sigla út fjörðinn stöndum við og leitum, og sjáum manninn bara þarna veifandi í fjöruborðinu. Þetta er rosalega merkilegt.“

Ekkert séð þessu líkt

Helgi Freyr Ólason með yngsta syni sínum, Skírni Frey Helgasyni.
Helgi Freyr Ólason með yngsta syni sínum, Skírni Frey Helgasyni. Ljósmynd/Aðsend

Veistu af eða hefurðu séð sjálfur eitthvað sambærilegt?

„Nei, aldrei, ekki í svona langan tíma. Þetta er rosalega merkileg saga hjá honum. Hann gerði bara það sem þurfti og drakk bara ferskvatn, passaði að vökva sig og borða eitthvað sem hann gat sett ofan í sig.“

Fram kom einmitt í tilkynningu Landsbjargar að hann hefði nært sig á jurt­um sem hann fann og taldi ætar og nær­ing­ar­rík­ar.

„Já, fer maður ekki bara í einhverjar stellingar til að lifa af. Hann var heppinn með það að það er búin að vera einmuna blíða hérna síðustu daga miðað við árstíma, en nóttin köld. Þetta er stórmerkileg saga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert