Ekki hefur enn tekist að ráða yfirlækni eða lækna í fastar stöður í Rangárvallasýslu. Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) hefur þó tekist að tryggja mönnun út sumarið, 2-3 lækna frá Noregi auk íslenskra lækna sem munu starfa þar í verktöku.
Þetta er niðurstaða sameiginlegs fundar sveitarfélaganna í Rangárvallasýslu og HSU á dögunum varðandi mönnun lækna á svæðinu.
Eins og fjallað hefur verið um í Morgunblaðinu hefur mönnun lækna í Rangárvallasýslu verið mjög ábótavant síðustu mánuði enda hafi ekki tekist að fastráða lækna á heilsugæslustöðina. Um jólin var ekki hægt að ná í lækni til að úrskurða mann látinn og var hann geymdur í herbergi á dvalarheimili yfir nóttina en var svo fluttur á útfararstofu. Í kjölfarið kom fram að dæmi eru um að bráðavakt lækna í Rangárþingi hafi fallið niður þar sem ekki hafi tekist að manna vaktirnar.
Á umræddum samráðsfundi, en greint var frá niðurstöðu hans á fundi sveitarstjórnar Rangárþings ytra í vikunni, kom fram að tveir norskir læknar munu skipta með sér einu stöðugildi. Starfa þeir hér í mánuð í senn en fá svo næsta mánuð í frí. Þá er gert ráð fyrir að þriðji norski læknirinn bætist við í sumar. Læknarnir koma hingað á vegum norskrar ráðningarstofu.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag