Ársreikningur Félagsbústaða fyrir síðasta ár var staðfestur á stjórnarfundi félagsins í gær en samkvæmt reikningnum nam hagnaður á rekstri þess tæpum 1.300 milljónum króna á árinu.
Félagið er óhagnaðardrifið hlutafélag í eigu Reykjavíkurborgar en hlutverk þess er að leigja út félagslegt leiguhúsnæði sem úthlutað hefur verið af velferðarsviði borgarinnar.
Kjartan Magnússon, stjórnarmaður í Félagsbústöðum og borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, gerði athugasemdir við reikninginn í bókun í fundargerð.
Bendir Kjartan á í bókun sinni að ekki gefi rétta mynd af rekstri Félagsbústaða að taka til matsbreytingu fjárfestingareigna upp á tæpar 2.600 milljónir króna eins og gert sé. Telur hann slíka virðishækkun á fasteignum félagsins hafa verið gerða til að fegra rekstrarreikning félagsins.
„Enda er slík matsbreyting reiknuð stærð, sem skilar ekki raunverulegum tekjum til rekstrarins.“ Án umræddrar matsbreytingar nemur tap félagsins 1.298 milljónum króna á árinu 2024.
Rekstrartekjur Félagsbústaða námu 7.078 milljónum króna á árinu, rekstrargjöld 4.104 milljónum og hrein fjármagnsgjöld 4.272 milljónum króna.
Kjartan bendir þá á að veltufé frá rekstri nemi einungis 1.654 milljónum króna á árinu og rétt standi undir afborgunum langtímalána, sem nemi 1.606 milljónum.
Þannig sé afar lítið svigrúm fyrir hendi til fjárfestinga og líklegt að þær verði fjármagnaðar með enn frekari lántökum en skuldir félagsins námu tæpum 65 milljörðum króna í árslok og jukust um 2,9% á milli ára.
Kjartan hefur einnig áhyggjur af veltufjárhlutfalli í árslok sem er aðeins 0,46, langt undir því sem eðlilegt getur talist. Alla jafna er talið æskilegt að veltufjárhlutfall sé ekki undir 1,0.
Handbært fé Félagsbústaða í árslok var aðeins 46 milljónir króna og lækkaði það um 383 milljónir úr 429 milljónum á milli ára.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem komu út í dag, föstudag.