Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, segir að hún vilji áfram að Ísland beiti sér fyrir friði í heiminum, bæði með fordæmi og fortölum. Skoðun hennar sé óbreytt að því leyti.
Hins vegar geri hún engar athugasemdir við þá stefnu sem mótuð er á vettvangi ríkisstjórnarinnar eða þau fjárframlög sem rétt kjörið Alþingi hefur ákveðið að renni til varna Úkraínu, en þar á meðal eru ýmis hernaðargögn, vopn og verjur.
Morgunblaðið leitaði eftir svörum hjá forsetaembættinu í framhaldi af fregnum um að Ísland hefði þegar veitt tæpum sex milljörðum króna í hernaðaraðstoð við Úkraínu. Sennilegt er talið að sá stuðningur frá Íslandi, líkt og öðrum Evrópuríkjum, aukist frekar en hitt á komandi árum, fari svo að Bandaríkin dragi varanlega úr þeirri aðstoð.
Í aðdraganda forsetakjörs á liðnu ári vék Halla að stuðningi Íslands við Úkraínuher í vörn hans gegn innrás Rússa og taldi hann mjög varhugaverðan. Hið herlausa og friðsæla Ísland ætti ekki að veita neinum fjármunum til vopnakaupa af nokkru tagi. Aðrir helstu frambjóðendur voru á öðru máli og minntu á að Ísland væri ekki hlutlaust ríki.
Svar Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, við spurningu blaðsins var í heild sinni svo:
„Forseti áréttar að Ísland er friðsæl og herlaus þjóð sem getur haft jákvæð áhrif á umheiminn með því að vera það áfram. Ísland hefur áður verið vettvangur friðarumleitana í heiminum. Hingað eru þau sem vilja vinna að friði og réttlátum leikreglum velkomin. Forseti og ráðherrar funda reglulega og ræða bæði innanríkis- og utanríkismál. Ráðherrum er kunnug sýn forseta og forseti er upplýstur um viðbótarframlag til varnartengds stuðnings við Úkraínu, sem tengist loforði fyrri ríkisstjórnar. Forseti setur sig ekki á móti stefnu lýðræðislega kjörins Alþingis og ríkisstjórnar. Hún mun hér eftir sem hingað til tala fyrir friði og mannúð og öðrum grunngildum þjóðarinnar, bæði innan lands og utan.“