Fræsari tilbúinn í Búðardal

Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segist vona til þess að …
Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segist vona til þess að viðhaldsframkvæmdir á vegum Vesturlands geti hafist í sumar. Samsett mynd mbl.is/Karítas/Ljósmynd/Vegagerðin

Fræsari er tilbúinn til notkunar í Búðardal á Vesturlandi til þess að breyta vegum í malarvegi sökum hættu við að keyra þá. Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segist ætla að ýta á eftir því að ráðherranefnd um ríkisfjármál taki fyrir beiðni um aukin fjárframlög til vega á Vesturlandi.

Umtalsvert hefur verið rætt um slæma stöðu vegakerfisins, ekki síst á Vesturlandi og uppsafnaða innviðaskuld. Blaðamaður mbl.is ræddi við Eyjólf um þessi mál að loknum ríkisstjórnarfundi fyrr í dag.

Bíður eftir gögnum frá Vegagerðinni

Segist Eyjólfur hafa fengið þær upplýsingar að fræsari sé nú tilbúinn í Búðardal þar sem algjör neyð ríki um að breyta vegum í malarvegi sökum þeirrar hættu sem þeim fylgja. Þannig hafa verið umtalsverðar vegablæðingar víða á Snæfellsnesi og Vesturlandi undanfarið með tilheyrandi hættu.

Eins og greint hefur verið frá hefur Eyjólfur skrifað bréf til fjármálaráðherra vegna ástands vega á Vesturlandi en einnig hefur hann tekið málið upp innan ríkisstjórnarinnar og mun málið verða tekið fyrir af ráðherranefnd um ríkisfjármál þar sem kemur þá í ljós hvaða úrræðum verður hægt að beita í sumar.

Aðspurður segir hann svar ekki hafa borist enn frá fjármálaráðherra. Sjálfur er Eyjólfur að bíða eftir gögnum frá Vegagerðinni um hvað þurfi að gera og mun hann í kjölfar þess ýta eftir því að fundur ráðherranefndarinnar fari fram sem fyrst.

„Þá liggur fyrir módelið - þetta þarf að gera og þetta er fjárhæðin.“

Nauðsynlegt að farið verði í viðhald í sumar

Þá segist hann meta það þannig að miðað við samtöl hans við Vegagerðina sé nauðsynlegt að farið verði í viðhaldsframkvæmdir á Vesturlandi strax í sumar.

„Svipað og var gert í fyrra minnir mig, þá var vegum breytt í malarveg og svo sett bundið slitlag aftur.“

Og það verður farið í þessa vinnu í sumar?

„Ég vonast til þess.“

Aðspurður segist hann ekki geta sagt um hvenær ráðherranefndin kynni nánari upplýsingar en nefnir að það verði væntanlega tilkynnt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert