Framteljendur skili sem fyrst

Senn líður að lokafresti og hvetur Jónas Magnússon hjá Skattinum …
Senn líður að lokafresti og hvetur Jónas Magnússon hjá Skattinum framteljendur til að hraða skilum sínum séu þeir með seinni skipunum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum í 63,9 prósentum og eigum von á að ná svona sirka 80 prósentum í dag,“ segir Jónas Magnússon, ritstjóri stafrænna miðla á þjónustu- og upplýsingasviði Skattsins, í samtali við mbl.is um skilastöðu skattframtala landsmanna sem hafa sinn lokaskilafrest á miðnætti í kvöld.

Spáð lokastaða skila við frestlok, 80 prósentin, nema þá nálægt 300.000 skattþegnum og segir Jónas aðspurður að tölfræðilega samræmist skilahlutfallið því sem tíðkast hafi síðustu ár.

Hvað þá með þennan fimmtung sem út af borðinu stendur, 20 prósentin?

„Það er auðvitað mjög fjölbreyttur hópur,“ svarar ritstjórinn, „sumir eru með endurskoðanda og þeir fá lengri tíma og það er stór hópur. Svo er einhver hópur sem skilar bara á næstu dögum, fljótlega á eftir, og svo er lítill hópur sem heyrist yfirleitt í á endanum,“ heldur Jónas áfram.

Greiðsluáætlanir rafrænar nú orðið

Vill hann beina þeim skilaboðum embættis síns til framteljenda að skila bara sem fyrst. „Það er ekki hægt að sækja um frest, en bara skila eins fljótt og auðið er,“ bendir Jónas á og segir aðspurður að hægt sé að semja um skuld er álagning liggur fyrir – skuldi gjaldandi á annað borð skatta.

Greiðsluáætlanir séu nú orðið gerðar á lýðnetinu, greinir Jónas frá, sérstaklega aðspurður, en ekki er lengra en 21 ár síðan sá sem hér skrifar starfaði sem þjónustufulltrúi hjá tollstjóranum í Reykjavík er þá hét og tekið var á móti þeim er þurftu að semja um skattgreiðslur sínar á staðnum, í lögfræðiinnheimtudeild Tollhússins við Tryggvagötu, en deildin varð til við samruna tollstjóra og Gjaldheimtunnar í Reykjavík er margir minnast frá öldinni sem leið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert