„Mér finnst gagnrýnin á Barna- og fjölskyldustofu mjög óréttmæt. Nú er ég búin að eiga marga fundi með þessu fólki og ég finn hvað þau brenna fyrir málunum og hvað þau eru að leggja sig fram. Þau geta ekki sagt nei við neitt barn. Þau taka við öllum og oft og tíðum í algjörlega vonlausum aðstæðum.“
Þetta sagði Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra, þegar mbl.is náði tali af henni eftir ríkisstjórnarfund í morgun og innti hana viðbragða við gagnrýni foreldra barna sem glíma við fíknivanda, sem beinst hefur gegn stofnuninni.
Í samtölum við mbl.is hafa foreldrar lýst upplifun sinni af algjöru úrræðaleysi og segja að þeim hafi verið gefnar falskar vonir um úrræði í sjónmáli.
„Gagnrýnin er í raun að beinast að röngum aðila. Hún á í raun að beinast að ríkinu,“ segir Ásthildur og ítrekar það sem hún hefur áður sagt, að um sé að ræða uppsafnaðan vanda. Vert er þó að taka fram að Barna- og fjölskyldustofa er ríkisstofnun sem heyrir undir mennta- og barnamálaráðuneytið.
Ásthildur segir að árið 2011 hafi Barnaverndarstofa, forveri Barna- og fjölskyldustofu, varað við að það stefndi í neyðarástand í málefnum barna með fjölþættan vanda.
„Og við erum hér í dag og það er ekkert búið að gera. Við erum hér í dag að takast á við þetta og gera allt sem við getum, en við verðum að fá smá tíma til þess.“
Síðastliðinn sunnudag birtist á mbl.is viðtal við móður 14 ára drengs með fíknivanda sem stóð mánuðum saman í þrotlausri baráttu við að koma drengnum í meðferðarúrræði á vegum Barna- og fjölskyldustofu, en fannst hún fá litla áheyrn og upplifði takmarkaðan skilning starfsfólks á alvarleika vandans sem ágerðist mjög hratt.
Ítrekað voru vaktar hjá henni falskar vonir um að úrræði væri í augnsýn. Henni fannst sem upplýsingar væru gefnar eftir hentugleika og ekkert skeytt um hvort þær stæðust eða ekki.
Þá sagði móðirin að stofnunin hefði líka ítrekað gefið bæði barnavernd og lögreglu rangar upplýsingar, ekki bara foreldrum, sem og eftirlitsstofnunum á borð við umboðsmann Alþingis og gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála.
Hún er ekki eina foreldrið sem lýst hefur erfiðum samskiptum, takmörkuðum skilningi og algjöru úrræðaleysi af hálfu Barna- og fjölskyldustofu, en mbl.is hefur rætt við foreldra nokkurra barna sem segja svipaða sögu.
Þá sagði Salvör Nordal, umboðsmaður barna, í samtali við mbl.is það ótrúlega mikið álag á foreldra barna í vanda að fá ítrekuð vilyrði fyrir þjónustu sem aldrei stæðist. Fólk yrði að fá réttar upplýsingar svo það gæti gert ráðstafanir.