Björgunarsveitir á Vesturlandi sem kallaðar voru út í gærkvöld til leitar í Borgarfirði undan ströndum Borgarness, nærri Grjótey, hættu leit um miðnætti.
Þetta segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar við mbl.is. Tilkynning barst um klukkan hálf níu í gærkvöld en samkvæmt heimildum mbl.is var talið hugsanlegt að maður hafi farið í sjóinn.
Jón Þór segir að rekald, einhvers konar belgur, hafi fundist í fjörunni á leitarstaðnum og mögulega útskýri það málið en það sé á borði lögreglunnar sem muni endurmeta stöðuna með morgninum.
„Okkar fólk verður ekki kallað út aftur nema eitthvað nýtt gerist,“ segir Jón Þór, sem segist ekki vera kunnugt um að einhvers sé saknað á svæðinu.