„Við erum með þrjá í gæsluvarðhaldi og einn í varðhaldi. Þetta eru þeir sem eru með stöðu sakbornings í málinu. Hvort að það séu fleiri get ég ekki farið í á þessari stundu. En við erum enn að meta það hvort óskað verði eftir því (gæsluvarðhaldi),“ segir Jón Gunnar Þórhallsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi í tengslum við rannsókn á manndrápsmáli.
Maður á sjötugsaldri lést en hann fannst þungt haldinn í Gufunesi á þriðjudagkvöld. Hann hafði sætt barsmíðum og lést á sjúkrahúsi.
Í heild hafa níu verið handteknir vegna málsins en fimm var sleppt eftir skýrslutöku. Jón Gunnar tjáir sig ekki um réttarstöðu þeirra sem var sleppt að henni lokinni.
Að sögn hans hefur lögregla fengið talsvert af myndefni frá fyrirtækjum og almenningi. Lögregla fór sjálf á ákveðnar staðsetningar til þess að fá myndefni.
„Ökutæki og heimili eru með myndavélar og ef við sjáum eitthvað sem gæti nýst þá athugum við það,“ segir Jón Gunnar.
Spurður þá gefur Jón Gunnar ekki upp kyn fjórðu manneskjunnar sem var handtekin í gær. Tveir karlmenn, 18 og 34 ára, í gæsluvarðhaldi og kona á 37. aldursári.
Aðspurður tjáir Jón Gunnar sig ekki um það hvort þau hafi á einhverjum tímapunkti verið í bíl með meintu fórnarlambi í málinu. Þá tjáir hann sig ekki um það hvort hinn látni hafi verið miðpunkturinn í einhvers konar tálbeituaðgerð.
„Það er eitthvað sem ég get ekki tjáð mig um. Við erum að rannsaka meinta frelsissviptingu, fjárkúgun og manndráp. En hvers eðlis málavextir eru förum við ekki nánar út í,“ segir Jón Gunnar.