Ísland hefur fengið um 2,4 milljarða kr. í styrki úr EU4Health-áætluninni og má gera ráð fyrir enn frekari styrkveitingum fyrir lok tímabilsins.
Alma D. Möller heilbrigðisráðherra hvetur stofnanir til að skoða þá möguleika sem felast í þátttöku í heilbrigðisáætlun Evrópusambandsins því ávinningurinn sé mikill.
Þetta kemur fram á vef heilbrigðisráðuneytisins.
Þar segir að EU4Health sé áætlun Evrópusambandsins (ESB) á sviði heilbrigðismála sem hafi það markmið að styðja við nýjungar á sviði heilbrigðisvísinda, stuðla að umbótum og bættu öryggi heilbrigðisþjónustu, bæta heilsu, fyrirbyggja sjúkdóma og vernda borgara fyrir heilsufarsógnum þvert á landamæri.
„Núgildandi áætlun ESB sem er fyrir tímabilið 2021-2027 er með fjárhagsáætlun upp á 5,3 milljarða evra til styrkveitinga og hefur umfangið aldrei verið meira,“ segir ráðuneytið.
Þá kemur fram að þátttaka Íslands í EU4Health hafi farið vaxandi og til landsins hafi verið úthlutað ríkulegum styrkjum til skilgreindra verkefna hérlendis og fyrir þátttöku í samstarfsverkefnum með öðrum Evrópulöndum.
„Embætti landlæknis hefur fengið úthlutaðar fjórar stórar styrkupphæðir til sértækra verkefna að upphæð nálagt 1,2 milljörðum íslenskra króna. Þessi verkefni snúa fyrst og fremst að hugbúnaðar- og upplýsingatækni og til að efla notkun stafrænna leiða til hagsbóta í heilbrigðismálum, s.s. greiða leiðir til að deila heilbrigðisupplýsingum á öruggan, skilvirkan og samhæfðan hátt innan og á milli landa. Þá hafa fjölmargar stofnanir heilbrigðismála gert samning um þátttöku í samstarfsverkefnum Evrópulanda sem eru styrkt fjárhagslega, og má þar nefna Lyfjastofnun, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, embætti landlæknis, Landspítalann og Reykjalund,“ segir í tilkynningunni.
Enn fremur segir að nú þegar sé áætlað að heildarupphæð fjárstyrkja til Íslands úr EU4Health-áætluninni nemi um það bil 16,3 milljónum evra, eða um 2,4 milljörðum íslenskra króna, sem fyrr segir.
„Þær upplýsingar byggja á samningum sem gerðir hafa verið fram til þessa um fjárstyrki fyrir skilgreind verkefni hérlendis og þátttöku í samstarfsverkefnum með fleiri Evrópulöndum. Fjárstyrkir eru greiddir samkvæmt framvindu verkefna á tímabili verkefna innan áætlunarinnar 2021-2027. Ekki er ólíklegt að fleiri styrkir bætist við á komandi 2-3 síðustu árum áætlunarinnar.“